Fátt hefur veitt fjölskyldunni jafnmikla gleði og tíkin Lotta. Vissulega fylgdu henni einhverjir hnökrar, svona fyrstu tvö til þrjú árin. Eins og frelsarinn fæddist Lotta litla í fjárhúsi, þó ekki í Betlehem heldur í uppsveitum Borgarfjarðar.

Fyrstu árin gekk Lotta gjarnan undir nafninu Lúsí, stytting á Lúsífer, sem lýsti að einhverju leyti hegðuninni. Hún átti heimilið og hennar mottó var; ég á þetta – ég má þetta. Gilti þá einu hvort um var að ræða gólflista og dyrakarma, enda mjúkir undir tönn, múrklæðningu á veggjum, vissulega meiri áskorun en ánægjulegt þegar árangurinn kom í ljós, ljósleiðaratengingu nágranna, varaliti, púða, skó, bréfpóst með kreditkortum eða sófasett.

Eftir tímabil hryðjuverka var Lúsí útvegað sérherbergi og búr. Falin myndavél sýndi að það tók hana eina mínútu og tuttugu sekúndur að opna búrið, koma sér út og opna inn í stofu. Þar sem hún hélt áfram í vinnunni sinni, að naga sófasettið. Á þessum árum var ég ekki sammála Mark Twain, sem líkaði þeim mun betur við hundinn sinn eftir því sem hann kynntist fólki betur.

Við mæðgur héldum áfram að reyna, fórum á þrjú hlýðninámskeið og vorum reknar af þeim öllum. Á fjórða ári hætti Lotta hins vegar allri vitleysu og hefur síðan verið svo til fullkomin. Sem sýnir að kannski er hægt að kenna gömlum hundum að sitja. Líka þeim sem eru hafnir yfir almenn siðferðisviðmið, eiga þetta og mega þetta. Mig grunar að þessa dagana tengi fleiri en ég við tilfinningar Mark Twain til fólks og hunda.