Íslendingar hafa um aldir dáðst að hestum sínum. Sturla frændi minn Sighvatsson átti gæðinginn Álftarlegg og Ásmundur hærulangur gæðamerina Kengálu. Hesturinn var stöðutákn á öllum tímum. Skáldin ortu um hesta og yfirnáttúrulegt samband manns og hests. Ótal hestamyndir gömlu meistaranna prýða sali Listasafnsins.

Við kristnitökuna árið 1000 gerði Þorgeir Ljósvetningagoði þann samning við þjóð sína að hætta öllu hrossakjötsáti. Hann lagði það að jöfnu við útburð barna og skurðgoðadýrkun. Íslenska þjóðin tók þessu banni alvarlega og snerti ekki hrossakjöt öldum saman.

Þegar mikil harðindi gengu yfir landið á fyrri öldum vildu menn fremur svelta en að leggja sér hross til munns. Mönnum var meira að segja bannað að egna fyrir refi með hrossakjöti.

En nú er öldin önnur. Ég var á ferðalagi á dögunum og kom við á þekktum veitingastað. Enskumælandi þjónn kom með matseðilinn og sagði kurteislega að hrossalundin væri uppseld. Fyrir skemmstu fór ég á annað veitingahús á landsbyggðinni og rak augun í „folaldakjöt tartar“ í forrétt.

Sjálfur hef ég aldrei smakkað hrossakjöt og er staðráðinn í að fara í gröfina án þess að leggja mér það til munns. Ég virði samkomulag mitt við Ljósvetningagoðann frá árinu 1000.

Íslendingar eru að missa öll tengsl við sögu sína og tungu. Á tímum allsnægta er þjóðin farin að éta hrossakjötið sem forfeðurnir fúlsuðu við um aldir af tilfinningalegum og trúarlegum ástæðum. Fljótlega mun íslenski hesturinn missa hlutverk sitt í þjóðarsálinni, bókmenntum og listum. Þess í stað mun hann hasla sér völl á matseðlum veitingahúsanna, steiktur eða soðinn í litríkum sósum með frönskum eða kartöflustöppu.