Á Íslandi eru starfræktir sjö háskólar. Íbúar landsins eru um 370 þúsund. Þetta þýðir að á bak við hvern háskóla eru innan við 53 þúsund íbúar. Í Danmörku mun þykja hæfilegt að hafa einn háskóla á hverja 500 þúsund íbúa.

Hvað er eiginlega að okkur Íslendingum? Flottræfilshátturinn ríður ekki við einteyming.

Engu er líkara en að fjöldi háskólastofnana hér á landi sé birtingarmynd minnimáttarkenndar sem brýst fram í mikilmennskubrjálæði.

Hér á landi væri tilvalið að hafa tvo öfluga háskóla, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Undir hatti HÍ gæti verið Háskólinn á Akureyri, auk bændaskólanna að Hólum og Hvanneyri, sem væru þá deildir eða útibú frá HÍ. HR gæti tekið Bifröst og Keili.

Með þessu móti mætti spara mikla fjármuni við yfirstjórn og stoðdeildir skólanna, auk þess sem kennsla og akademískt starf yrði öflugra en nú er. Slagkrafturinn yrði enn fremur mun meiri hjá tveimur stórum og öflugum háskólum en þegar kröftum og fjármunum er dreift á sjö misöfluga skóla.

Í haust tilkynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um stofnun sérstaks tveggja milljarða sjóðs – Samstarfssjóðs háskóla – sem „ætlað er að ýta undir öflugt samstarf allra háskóla á Íslandi.“ Í stað þess að sameina skóla, einfalda og spara fjármuni er með öðrum orðum farið í gamaldags sjóðasukk.

Í síðustu viku var fyrsta úthlutun úr sjóðnum. Þá var tilkynnt að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefði ákveðið að úthluta meira en milljarði króna til „aukins samstarfs háskóla með það að markmiði að auka gæði námsins og samkeppnishæfni skólanna.“

Meðal verkefna sem hlutu náð fyrir augum úthlutunarnefndar og ráðherra er verkefni sem stuðlar að því að nemar í meistaranámi geti stundað nám í mörgum skólum á sama tíma! Var ekki bara hægt að fækka skólunum? Er eitthvað sem bannar skólum að starfa saman? Þurfa skattgreiðendur að styrkja slíkt sérstaklega?

Þegar hið nýja ráðuneyti Áslaugar Örnu var stofnað í þeim tilgangi að fjölga ráðherrastólum til að ráðherrakapallinn gengi upp við síðustu stjórnarmyndun var slegið á að stofnun ráðuneytisins kostaði skattgreiðendur tvo milljarða. Nýi sjóðurinn tvöfaldar þann kostnað og sjáum við þó rétt toppinn á ísjakanum.