Rétt eftir aldamótin síðustu vann ég við lestun og aflestun gáma í flutningaskip í Sundahöfn. Þetta var ágætis vinna með miklum vinnulotum þegar skipin lögðust að bryggju og með rólegri dögum inn á milli. Minnisstæðast frá þessum dögum í Sundahöfn var þó hvernig ég uppgötvaði og sá með eigin augum, grundvallaratriði íslensks hagkerfis.

Þegar gámaskipin voru lestuð var byrjað á að setja frystigáma neðst í lestar skipsins. Þessir gámar gátu vegið margfalt á við hefðbundna gáma. Eftir að lestar skipsins höfðu verið fylltar þungum frystigámum var smávegis pláss eftir fyrir brotajárn sem komið var fyrir fremst í skipinu og þá var kjölfestan klár. Skipið var þegar hér var komið sögu sokkið djúpt í hafflötinn og því var tómum þurrgámum lestað í fimm stæður ofan á dekk skipsins. Þetta voru semsagt útflutningsvörur okkar, frosinn fiskur og smávegis brotajárn.

Sama skip snéri svo til baka með sömu gáma, en með allt annað innihald. Gámar sem farið höfðu tómir út snéru nú sneisafullir til baka af alls kyns dóti, bílum, fatnaði, húsgögnum, raftækjum og öllu því sem hingað er flutt inn. Aðrir hagvísar sem ég lærði þarna á kajanum voru, að þegar mikið væri flutt inn af bílum þá græddi skipafélagið og þegar iðnaðarmenn væru farnir að vinna á bryggjunni þá væri næsta víst að kreppa væri væntanleg.

Ég held ég hafi aldrei haft puttann jafn skýrt á púlsinum og þegar ég vann þarna á bryggjunni. Allir sáu að grunnstoðir hagkerfisins þurfti að efla. Fleiri virtust hafa verið á þeirri skoðun, því skömmu síðar var ákveðið að Ísland skyldi verða alþjóðleg fjármálamiðstöð. Síðan hef ég ekki skilið íslenskt hagkerfi.