Ég las með athygli pistil Kolbrúnar Berþórsdóttur í Fréttablaðinu í dag. Þar eru staðreyndir máls afbakaðar. Þar sakar Kolbrún mig og ónefnda félaga mínaum meðvitundarleysi í náttúruverndarmálum. Ástæðan er gagnrýni mín á vinnubrögð umhverfisráðherra þegar kemur að framkvæmd friðlýsinga á grundvelli rammaáætlunar. Það er greinilegt að Kolbrún, viljandi eða óviljandi, hefur misskilið hvað gagnrýni mín gengur út á. Ég tók sjálfur þátt í mikilli vinnu við lagasetningu um rammaáætlun og studdi þar friðlýsingu þeirra virkjunarkosta sem fara í verndarflokk. Í ræðum mínum um þessi mál hefur m.a. komið fram að ég tel að virkjanakostir t.d. á Reykjanesi eigi að vera í verndarflokki á sama tíma og Svandís Svavarsdóttir setti þá í nýtingarflokk, eins og hún gerði við Hvalárvirkjun. Sú virkjun hefur síðan farið sína leið í gegnum nálarauga kerfisins og þá er risið upp og mótmælt. Ég hef ítrekað sagt að margir virkjanakostir í vatnsafli eru áhugaverðari, bæði í efnahagslegu og umhverfislegu tilliti séu til. Vandamálið er að enginn þeirra var settur í nýtingarflokk og það gagnrýndi ég á sínum tíma.

Vegna vinnubragða núverandi og fyrrverandi umhverfisráðherra er mikil hætta á að öll sú vinna sem liggur til grundvallar rammaáætlunar sé fyrir bí. Ástæðan er rangtúlkun á lögunum. Ástæða er til að spyrja Kolbrúnu og fleiri um það, hvort þau telji það í þágu náttúrverndar að ferli rammaáætlunar verði aflagt? Ég tel að það væri mjög alvarlegt fyrir náttúrvernd og vil ekki sjá það gerast. En eins og fram er haldið er enn og aftur verið að rjúfa sáttina, rjúfa rétt framtíðarkynslóða til lífsbjargar.

Í umsögnum fjölda aðila til Umhverfisstofnunar eru vinnubrögð ráðherrans harðlega gagnrýnd. Þar á meðal eru Orkustofnun, Landsvirkjun, Samorka, sem er samtök allra veitufyrirtækja á Íslandi. Í raun hefði ég haldið að þær alvarlegu ásakanir sem þar birtast væru tilefni til sérstaks fréttaflutnings. Ég er sammála þessum gagnrýnisröddum og álit þeirra er stutt gildum rökum. Verklag ráðherrans samræmist, að mínu mati og þessara aðila m.a., ekki lögum. Ég trúi því ekki að Kolbrún Bergþórsdóttir telji málstaðinn og ráðherrann hafinn yfir lög og að alþingismenn eigi að láta það yfir sig ganga. Það hefur svo sem áður gerst í þessum málaflokki að ráðherra taldi málstaðinn æðri lögum og kaus að brjóta lög með opin augun. Hæstiréttur dæmdi þann gjörning ólöglegan. Viljum við að það gerist í þessu tilfelli? Líklegt verður að telja að farið verði með friðlýsingarmál fyrir dómstóla haldi þessi vitleysa áfram. Ef þannig færi að ákvarðanir ráðherrans yrðu dæmdar ólöglegar, væri öll vegferð hans til einskis og við værum á byrjunarreit. Það væri ömurlega staða og klárlega ekki í þágu náttúruverndar.


Mér er ljóst að flækjustigið í þessum málalfokki er mikið. Það er einmitt þess vegna sem ætlast verður til þess að fólk sem nýtur þess trausts að skrifa skoðanadálk í víðlesið dagblað og einhverjir lesendur kunna að byggja skoðun sína á, hafi fyrir því að koma sér upp lágmarks þekkingu á málefninu sem skrifað er um. Því er ekki að heilsa hjá Kolbrúnu Bergþórsdóttur í þessum málaflokki, að því er best verður séð. Því miður.

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.