Áttundi bekkur í Hagaskóla sat heima í gær eftir að mygla greindist í múr þartilgerðrar áttundabekkjarálmu. Skólinn bætist þar með á vaxandi lista grunnskóla í Reykjavík sem hafa þurft að slíta kennslu vegna myglu á undanförnum mánuðum.

Hagskælingar fagna því líklega að fá að brjóta upp heimasetu vegna sóttkvíar eða einangrunar með heimasetu sökum myglu, en óskandi væri að húsanördar myndu rannsaka hvort arkitektar hafi hannað grunnskóla borgarinnar í funkis- eða fungis-stíl.

Messuvín

Þótt Alþingi hafi ekki komið saman í rúmlega hálft ár gengur lífið áfram sinn vanagang. Óspektir vegna anarkíunnar hafa verið í lágmarki, sem vekur upp spurninguna hvort það séu fleiri stofnanir sem samfélagið gæti verið án, til lengri tíma litið.

Myndi einhver sakna Menntamálastofnunar í svo sem eins og hálft ár?

Vínbúðin er þó ómissandi bákn sem leitar nú í örvæntingu að nýju húsnæði í miðborginni en sennilega endar hún á að opna fyrir starfsemi í Hallgrímskirkjuturninum, aðsókn hvers hefur liðið fyrir fækkun ferðamanna í faraldrinum.