Undanfarnar vikur hafa forystumenn stjórnmálaflokka keppst við að auglýsa stefnuskrár sínar og áherslur fyrir kosningar. Þeim er svo fylgt eftir með hnitmiðuðum slagorðum, sem eiga að vera innihaldsrík, áhrifamikil og grípandi – væntanlega kosningaloforð. Gott mál það, enda grundvöllur lýðræðis. Eitt þessara slagorða vakti þó sérstaka athygli. Miðflokkurinn birti endurtekið heilsíðumynd af formanni flokksins undir slagorðinu. „Almenn heilbrigðisskimun á þriggja ára fresti þér að kostnaðarlausu!“

Fyrstu viðbrögð fagfólks voru bara að glotta eða brosa góðlátlega – þetta er bara gaga grín, var sagt. Ha, ha, skima fyrir hverju – þekkingu, greind, glöpum? Og af hverju á þriggja ára fresti og á hvaða aldri?

Þegar slagorðið var endurtekið í blöðum og útvarpi var öllum ljóst að þetta var ekkert grín. Slagorðið var og er að mínu mati bæði varhugavert og óábyrgt. Þar af leiðandi áhyggjuefni. Áhyggjuefni m.a. vegna þess að innan flokksins er fólk í forystu sem hefur tjáð sig um skimanir í fjölmiðlum. Þetta slagorð getur leitt til kolrangra skilaboða til þjóðarinnar um ágæti skimana og jafnvel að þær séu ódýr og örugg forvörn. Málið er ekki svo einfalt og fer eftir því fyrir hverju er skimað. Skimanir kosta mikið og lýðheilsuárangur oft óljós. Skimanir lækka til dæmis ekki heildardánartíðni þess hóps sem tekur þátt.

Mikilvægt er að þeir sem hafa áhuga á að skipuleggja heilbrigðismál kunni skil á skilmerkjum, kostum og göllum skimana, sem samþykkt hafa verið af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO), síðast árið 2020. Benda má á að í titli þeirrar skýrslu er orðalagið „til að hámarka gagnsemi og gera sem minnstan skaða“ (maximize benefits and minimize harm). Þetta orðalag undirstrikar áherslur hinnar faglegu umræðu sem beinst hefur að hinu flókna jafnvægi á milli ávinnings annars vegar og skaða skimana hins vegar síðastliðna áratugi.

Ofanritað beinist eingöngu að einu slagorði eða áhersluatriði væntanlegra þingmanna og með vilja skrifað eftir kosningar til þess að leggja áherslu á að um er að ræða langtímaverkefni – að fræða almenning um kostnað, kosti og takmörk skimana.