Sú saga flýgur – og þær eru nú oftast bestar á flugi – að Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, íhugi að taka slag um formanns- eða varaformannsstól Samfylkingarinnar, en þar fer þaulvanur haukur í horni jafnaðarmanna.

Kristrún Frostadóttir upplýsti í Fréttablaðinu fyrr í vikunni að hún væri með til alvarlegrar skoðunar að bjóða sig fram. Á sama tíma bíða margir ákvörðunar Dags B. Eggertssonar.

Nostalgía

Þessa dagana er hvíslað meðal nostalgískra Samfylkingarmanna, tárvotra, þeirra sem muna þá tíð þegar flokkurinn fékk 30 prósenta fylgi, að ef Dagur tekur ekki slaginn gætu Kristrún og Guðmundur Árni orðið söluvara. Hún er aðeins 34ra ára gömul, en ráðherrann fyrrverandi ku vera eitthvað eilítið eldri, að eigin sögn.

Og talandi um nostalgíuna í fylkingunni, nafni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrverandi formanns Samfó hefur einnig verið hreyft í umræðunni um næsta leiðtoga flokksins. Já, það er ýmislegt skrafað, eðlilega, eftir að Logi Már Einarsson kvaddi formennskuna eftirminnilega á forsíðu blaðsins um daginn.