Við gáfaða og góða fólkið þurfum að sætta okkur við augljósa staðreynd:

Við erum gagnslaus. Já, erfitt að heyra það. En svona er þetta.

Skoðum það stuttlega.

Langstærsta viðfangsefnið, sem við missum svefn yfir, er umhverfismál. Í stóra samhenginu umhverfisváin á heimsvísu, á Íslandi virkjanir og orka, endurvinnsla og einstaka staðbundið rifrildi.

Hlýnunin er raunveruleg, en í raun skiptir minnstu máli hvort hún er af manna völdum eða ekki. Við – og bara við – getum brugðizt við.

Það hjálpar hreint ekki að rækta sektarkennd með heilu þjóðunum og hrópa: „Þetta er allt ykkur að kenna!“ Gagnlegra er að höfða til samkenndar og ábyrgðar.

En það stoðar líka takmarkað, af því að við þessi gáfuðu erum of vitlaus. Við tölum ekki við fólk.

Við óupplýstri alþýðu blasa svona fullyrðingar: Prump og ropi úr beljum valda fjórðungi kolefnisútlosunar. Með því að moka ofan í skurði mætti draga úr henni um önnur 75 prósent. Þorskur hefur 50 prósent smærra kolefnisfótspor en eldislax. Eru þetta ekki örugglega 150 prósent samanlagt?

Svona tölur dynja á okkur nánast daglega og hvers á óbreytt alþýðan að gjalda? Jú, þessar upplýsingar síast smám saman inn og fólk vill breyta rétt, en heimsenda­spárnar verða til þess fremur en hitt, að það lokar eyrunum.

Eða hvað á það svosum að gera? Ef Kínverjar menga á við skrilljón manns, hvaða máli skiptir hvort ég nota eitt eða tvö blöð á klósettrúllunni? Þannig erum við gáfufólkið beinlínis til óþurftar. Svona samtöl eiga sér stað hversdags:

– Ég er að fara í Smáralind. Mig vantar bleikan bol.

– Hvers vegna?

– Það er bleikt þema í afmælinu hjá Bryndísi.

– Hvað áttu marga bleika boli?

– Þrjá.

– Hvers vegna þarftu þá einn í viðbót?

– Af því að hinir passa ekki inn í þetta þema.

– Veiztu að það þarf tvö þúsund lítra af vatni til að rækta bómullina sem fer í einn svona bol?

– Jájá. Farðu þá bara með einhvern af hinum í Sorpu. Kreista þau ekki vatn úr gömlum bolum?

Samtali lýkur.

Rammaáætlun um vernd, nýtingu og … æ, hvað heitir þetta nú aftur? Munið þið það ekki heldur?

Ef við gáfaða fólkið (það les þetta enginn annar) erum ekki með þetta á hreinu, hvernig á venjulegt fólk að vita hvur fjandinn er á ferðinni?

Til að einfalda málið koma svo þingmenn og lobbíistar og tala sífellt um „rammann“, eins og hann sé eitthvað sem fólki ætti að vera tamt á tungu.

Maður kaupir ramma í IKEA.

Enginn talar um efnisatriði, en því meira um svik og hrossakaup. Það er í samræmi við þá hvimleiðu áráttu alþingismanna, að tala sem mest um innanhússmál á vinnustaðnum sínum. Hver sagði hvað á þessum nefndarfundi og hví forseti hleypi ekki hinu málinu á dagskrá.

Sjálfhverfari verður tilveran varla, en öllum öðrum er alveg sama. Nema gáfaða fólkinu sem talar við sjálft sig.

Hinir eru að sækja krakkana á æfingu, flýta sér í Bónus eða bara að halda fram hjá.

Hugsanlega að skoða ramma í IKEA.

En við höfum vitaskuld áhyggjur og stundum er okkur verulega misboðið.

Þegar ríkisvaldið ákveður að níðast á saklausu fólki. Oftast af því að það fæddist í útlöndum, og enn frekar ef það hefur tiltekin litarefni í húðinni. Líka þegar Bjarni Benediktsson selur banka.

Og þegar vinir hans í Samherja eru staðnir að víðtækum glæpum í Afríku, að við nefnum ekki fautaskapinn gegn fjölmiðlafólki í kjölfarið.

Þá höldum við fundi. Útifundi með nokkrum hundruðum.

Þeir fara sirka svona fram:

Illugi er hneykslaður og flytur ígrundaða ræðu, fer yfir helztu efnisatriði, dregur saman, hneykslast aðeins meira, og hvetur fólk til að gefast ekki upp í baráttunni gegn óréttlætinu.

Auður Jóns talar í sinni ræðu um ranglæti og tilfinningar, einlæg en stillir sig um reiði. Segir eina sögu af sjálfri sér. Tilfinningar eru mikilvægar.

Hallgrímur kemur og flytur of langa ræðu.

Eða of ofort ljóð.

Fer svo hver til síns heima og hefur fengið útrás fyrir reiðina þann daginn.

Fæst af þessu skiptir nokkru máli. Góða fólkið skiptir kannske nokkrum þúsundum, en á meðan það talar og gapir sífellt hvert upp í annað mun það ekki breyta neinu um skoðanir, hag eða líf venjulegs fólks.

Það hrekur fólk frá með vitsmunahroka og tungutaki þeirra sem vita betur. Það talar ekki við fólk.

Á meðan reiknar hinn óupplýsti almenningur út húsnæðislánin sín. Eða hugsar um heilbrigðismál. Skóla.

Um það eru aldrei haldnir fundir á Austurvelli.