Það er margt framandi við flugbransann og auðvelt að ala á fordómum gagnvart því sem fólk skilur ekki. Eitt af rótgrónustu úrræðum flugrekenda og flugmanna sem tryggir flugöryggi er starfsaldurslistinn, ein af burðarsúlum heilbrigðar öryggismenningar. Þetta fyrirkomulag er ekki séríslenskt og er ekki krafist samkvæmt lögum eða reglugerðum. Það þarf engan að undra að þetta rótgróna fyrirkomulag passi illa við ferkantað skapalón opinberrar stjórnsýslu. Núna tekst ekki að ljúka gerð kjarasamnings við flugmenn Landhelgisgæslunnar því samninganefnd ríkisins hefur bitið í sig þá sérviskulegu fordóma að starfsaldurslisti flugmanna Gæslunnar standist ekki lög um opinbera starfsmenn. Orðið starfsaldurslisti kemur ekki fyrir í lögum um opinbera starfsmenn. Öryggisnefnd FÍA viðheldur alla jafnan ströngum hliðaraðskilnaði við kjaramál, en þegar framganga viðsemjenda er til þess fallin að skaða flugöryggi látum við í okkur heyra. Það er líklega eins gott að sanngirnismenning (e. just culture) hafi verið innleidd í lög um loftferðir, annars er hætt við að flugrekendur sem skortir faglegan metnað myndu taka þann pól i hæðina að hafa sinn rekstur alls ekki með því móti, því þess væri ekki krafist í lögum.

Þeir sem reka fjármálafyrirtæki á markaði kunna ef til vill vel við samkeppni á skrifstofunni, en að skapa slíkt andrúmsloft í stjórnklefa fjölstjórnarvéla er allt annað en eftirsóknarvert. Það hefur til dæmis vakið furðu fjölmiðlamanna að flugfélag þurfi að segja flugmönnum upp í starfsaldursröð komi til samdráttar. Málsmetandi fjölmiðlamaður hafði á orði síðastliðið sumar að flugfélag þyrfti að geta haldið í „öfluga afburðaflugmenn“ og fullyrti í viðtali að þetta væri „algerlega galið kerfi“ án þess að neinar röksemdarfærslur fylgdu með. Þetta kerfi er nú ekki galnara en svo að fleiri en færri flugfélög búa svo um hlutina, að minnsta kosti í þeim heimshluta sem við teljumst tilheyra. Hér hættir fjölmiðlamönnum til að rugla saman rekstri flugfélaga og fjármálafyrirtækja. En hverjir eru „öflugir afburðaflugmenn“? Eru það flugmennirnir sem valda minnstum kostnaði og lenda á áfangastað með minnst eldsneyti? Þeir sem lenda aldrei á varaflugvelli og fljúga mest fyrir sem lægst laun? Eru það flugmenn sem þora að taka áhættu, láta ekki samviskuna flækjast of mikið fyrir sér, eru kaldlyndir í erfiðum ákvarðanatökum og hafa getu til að ráðskast með fólk? Að heimfæra þau lögmál sem áhættusækin fjármálafyrirtæki starfa eftir upp á starfrækslu flugvéla er einu orði sagt háskalegt. Lexíur flugiðnaðarins og fjármálageirans í raun líka, eru margar og sárar.

Við sækjumst flest öll eftir framgangi í starfi. Flugmenn sem starfa á fjölstjórnarvélum sjá eitt stórt tækifæri á sinni sjónarrönd. Að færast úr starfi flugmanns í sæti flugstjóra. En það er ekki sjálfgefið, því þreyta þarf próf, bæði bóklegt og verklegt í flughermi til þess að stíga fæti fram yfir þessa sjónarrönd. Það þykir í senn sanngjarnt og hluti af heilbrigðri öryggismenningu að flugmenn þreyti þetta eina próf er röðin kemur að þeim samkvæmt starfsaldursröð. Slíkt fyrirkomulag skapar sanngirni og fyrirsjáanleika. Flugrekendur með skýra stefnu og langtímamarkmið ráða einmitt til starfa flugmenn sem teljast líklegir til þess að standast þetta próf þegar röðin kemur að þeim. Þegar fólk er spurt um ávinninginn af því að styðjast ekki við starfsaldurslista er iðulega lítið um svör eða svörin á þá leið að þá sé hægt að ráðskast með flugmannahópinn. Svo er hægt að orða það á mismunandi máta. Afleiðingin af slíku stjórnlyndi er möguleg togstreita á milli flugmanna sem þurfa að taka snarpar ákvarðanir í síbreytilegu og hröðu starfsumhverfi. Án starfsaldurslista hafa stjórnendur óheft frelsi til að ráðskast með flugmenn og handvelja hvaða flugmenn verða flugstjórar og hverjir ekki. Slíkt ástand hefur skaðleg áhrif á öryggismenningu. Stærsti ábatinn fyrir flugrekanda er að með starfsaldurslista halda flugmenn fremur tryggð við flugrekandann.

Muni samninganefnd ríkisins ná fram markmiði sínu, munu dyr spillingar og frændhygli standa opnar forstjórum Landhelgisgæslunnar til framtíðar.

Það er nöturlegt til þess að hugsa að samninganefnd ríkisins skuli vera staðráðin í því að skaða öryggismenningu Landhelgisgæslunnar með þessum hætti. Að heimfæra ráðstafanir sem gilda um starfsmenn á t.d. opinberum skrifstofum annars vegar, upp á stjórnklefa fjölstjórnarflugvéla hins vegar, er fjarstæðukennt. Það er einlæg von okkar meðlima Öryggisnefndar FÍA að samninganefnd ríkisins öðlist nauðsynlegan skilning á öryggismenningu flugrekenda og setji til hliðar ferkantaða skapalónið.