„Við hötum það þegar vinum okkar vegnar vel,“ söng Morrissey. Þótt ensk-írski hjartaknúsarinn hafi sagt að textinn vísi til tónlistarsenunnar í Manchester-borg, þar sem upprennandi hljómsveitir börðust í bökkum um frægð og frama, geta margir tengt við lagið á einhvern hátt. Það er ekki þar með sagt að allir sem það geri séu illa innrætt kvikindi, blind af öfund í garð nágranna síns. Blákaldur veruleikinn er einfaldlega sá að í flestum tilvikum nýtur maður minni návistar við vini sína eftir því sem þeir verða hamingjusamari.

Það þekkja það flestir þegar vinir manns byrja fyrst í sambandi. Sá tími sem þeir verja með makanum eykst eftir því sem sambandið verður dýpra og fyrir vikið verður tíminn með félögunum ennþá minni. Þegar barneignir blandast í leikinn glatast nær allt samband utan við það þegar maður gefur þeim læk á myndir af einhverju slefandi kríli á samfélagsmiðlum. Við hvert gæfuspor gefst sífellt minni tími fyrir vináttuna.

Auðvitað gleðst maður með sínum nákomnu þegar þeir verða hamingjusamari í lífinu. Þetta eru jú, eftir allt saman, vinir manns. Það má samt alveg viðurkenna fyrir sjálfum sér að maður sakni þess að hafa greiðari aðgang að þeim. Krumlur gæfunnar eru svo helvíti gráðugar. Að sama skapi er erfitt að horfa upp á sambandsslit vina sinna sem geta tekið virkilega á. Það má samt alveg viðurkenna fyrir sjálfum sér að það sé hressandi þegar þeir fara tárvotir að draga mann í bjór og pool á nýjan leik. Sambandsslit hafa nefnilega svo liðkandi áhrif á stundatöfluna.