Mál egypskrar fjölskyldu sem sótt hafði um alþjóðlega vernd hér á landi er það nýjasta í röð slíkra mála sem hafa fangað athygli fjölmiðla. Gagnrýni á aðgerðaleysi í málaflokki hælisleitenda hefur verið áberandi í samfélagsumræðunni og er jafnvel kallað eftir nýrri stefnu í málaflokknum. Ég get vel tekið undir þessi sjónarmið. Hér þurfa íslensk stjórnvöld að mynda sér heildstæða stefnu og halda sig við hana. Málsmeðferð og niðurstaða verður að byggjast á jafnræði og gagnsæi. Kerfi þar sem tafir á málsmeðferð og jafnvel felur fyrir stjórnvöldum verða að keppikefli er gallað og ósanngjarnt.

Undanfarin ár hefur umsóknum um alþjóðlega vernd, hælisumsóknum, fjölgað verulega hérlendis og hælisveitingum sömuleiðis. Ef við berum okkur saman við Norðurlöndin, eins og við gerum svo gjarna, þá sækja hlutfallslega flestir um hæli á Íslandi og jafnframt fá hlutfallslega langflestir hæli hér. Sama er ekki uppi á teningnum hvað varðar móttöku kvótaflóttafólks. Þótt við höfum vissulega tekið á móti aðeins fleira kvótaflóttafólki undanfarin ár fer langstærstur hluti þeirra fjármuna sem varið er í þennan málaflokk í hæliskerfið. Þannig fékk 531 einstaklingur alþjóðlega vernd hér á landi í fyrra, en 867 einstaklingar sóttu hér um sama ár. Til samanburðar má nefna að ríkisstjórnin samþykkti að taka á móti 85 kvótaflóttamönnum árið 2020.

Það má því með sanni segja að meginreglan sem gildir hérlendis um tækifæri til betra lífs sé fyrstur kemur, fyrstur fær. Kerfið okkar hvetur fólk til þess að koma hingað til lands á eigin vegum og sækja um hæli. Athyglisvert er því að skoða upprunalönd þessa hóps. Í fyrra sóttu meðal annars um 100 einstaklingar frá Lettlandi, Litháen, Bretlandi, Ástralíu, Brasilíu, Bandaríkjunum, Rúmeníu, Albaníu, Georgíu og Indlandi um alþjóðlega vernd hér á landi.

Diljá_graf.png

Þeir sem vilja endurskoða framangreinda meginreglu varðandi veitingu alþjóðlegrar verndar hérlendis eru eflaust ekki sammála um í hvaða breytingar þurfi að ráðast. Hér er hins vegar rík hefð fyrir að líta til reynslu og framkvæmdar á Norðurlöndunum í hinum ýmsu málaflokkum og ætti þessi ekki að vera undanskilinn. Fyrir því eru engin haldbær rök, enda enginn sem heldur þeim á lofti.

Það er yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að Ísland leggi sitt af mörkum til lausnar á vanda flóttafólks og taki í því skyni á móti fleirum. Ísland er ríkt land í alþjóðlegum samanburði og vel í stakk búið til þess að láta gott af sér leiða. Þótt fámennið setji okkur skorður viljum við standa okkur vel við að taka á móti fólki sem flýr stríðsátök, ofsóknir og umhverfis- og heilbrigðisvá. Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum en í dag eða um 80 milljónir manna og þeim fer fjölgandi. Þegar við berum saman þróun umsókna og hælisveitinga á Norðurlöndunum undanfarin ár er ljóst að við stefnum í allt aðra átt en þau. Krafan um gagnsætt og sanngjarnt kerfi og að aðstoð beinist þangað sem hennar er þörf er í fyrirrúmi hjá nágrönnum okkar. Sú afstaða byggist á lærdómi sem dreginn hefur verið af áratugalangri reynslu.

Undanfarin ár hafa sænsk stjórnvöld hert reglur um móttöku hælisleitenda og kallað eftir gagngerri endurskoðun á stefnu Evrópusambandsins í þessum málum. Í nýlegri stefnuræðu Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur og leiðtoga jafnaðarmanna, sagði hún að útlendingapólitík fortíðarinnar hefði einfaldlega verið röng og hæliskerfið sem ríki Evrópu vinni eftir sé að liðast í sundur. Danskir jafnaðarmenn hafa haft það á stefnuskrá sinni undanfarin ár að breyta hæliskerfinu til þess að aðlögun flóttamanna með viðurkennda stöðu í Danmörku gangi betur. Það er forgangsmál að draga úr straumi hælisleitenda til Danmerkur, torvelda starfsemi þeirra sem hagnast á mansali og uppræta skipulagða glæpastarfsemi.

Það er óásættanlegt að fólki sé skipt í tvo hópa í fyrirfram mótaðri umræðu um þessi mál; þá sem eru fylgjandi móttöku flóttamanna og þá sem eru andvígir. Ég tel að almenn sátt ríki um að Ísland skuli uppfylla skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna, taka vel á móti fólki á flótta undan raunverulegum ógnum; taka vel á móti sínum minnstu bræðrum og geri ekki minna en þeir sem best gera í þeim efnum. Í því ljósi hlýtur það að vera eðlileg stefna að hæliskerfið hérlendis verði tekið til endurskoðunar og fært nær því sem gerist hjá nágrannaþjóðum okkar. Þar, líkt og á öðrum sviðum, verði gerð krafa um jafnræði og gagnsæi og umfram allt að fjármunum sé veitt þangað sem neyðin er stærst.