Undir lok efnahagshrunsins kynnti Viðskiptaráð frjálshyggjuveituna McKinsey fyrir íslenskum stjórnvöldum og hefur hún síðan verið hér með annan fótinn, nú um skeið að gera tillögur um endurskipulagningu Landspítalans.

Hugmyndir til lausnar rekstrarvandanum úr þessari átt eru sígildar: Markaðsvæðið kerfið, bútið það niður í verkferla og borgið svo samkvæmt unnu verki á sama hátt og gagnvart sjálfstætt starfandi læknum. Fjárveitingin verður þá vélræn og skrefið yfir í einkavæðingu stutt. Allt innra skipulag kemur til með að skipta minna máli því fjármagnið eltir sjúklinginn, að minnsta kosti fyrst í stað eða þangað til milliliðirnir eru komnir til sögunnar eins og við sjáum nú gerast í orkugeiranum.

Óneitanlega hljómar þetta sannfærandi: Sinnum sjúklingunum betur, losum okkur við skriffinnskuna.

Stjórnendur Landspítalans hafa lengi verið hallir undir slíkar hugmyndir og hafa á undanförnum misserum verið að feta sig inn í afkastatengt kerfi í svipuðum dúr og Svíar hafa tekið upp. Vandinn við þessa vélrænu bókhaldshugsun hefur hins vegar reynst vera sá í Svíþjóð að þjónustan hefur leitað inn í farvegi sem gefa viðkomandi stofnun mest í aðra hönd. Þau verk eru unnin sem borga sig, en önnur látin sitja á hakanum þótt þau séu ekki síður aðkallandi. Markaðslögmálin taka þannig völdin innan veggja hins opinbera eins og gerist í einkarekstri. Þetta hefur verið gagnrýnt í Svíþjóð og væri vert að skoða áður en lengra er haldið.

Augu manna beinast nú að nýjum stjórnendum Landspítalans. Björn Zoega stjórnarformaður talar fyrir McKinsey lausninni sem hann hefur sjálfur reynt sem forstjóri sjúkrahúss í Svíþjóð og Runólfur Pálsson forstjóri tekur undir og segist fullur tilhlökkunar enda „bjart fram undan“.

Það er vandaverk að veita rekstrarfjármagni inn í heilbrigðiskerfi sem tekur stöðugum breytingum og þarf að sinna breytilegum þörfum. Það er því skiljanlegt að hin vélræna lausn þyki fýsileg í stofnun sem talað hefur fyrir daufum eyrum fjárveitingavalds, en einnig fyrir fjárveitingavaldið því hún firrir það ábyrgð.

Nú þurfa fjölmiðlar að horfa víðar en til þeirra Björns og Runólfs því valkosturinn við þeirra lausn er sá að Alþingi endurskoði sín vinnubrögð; í stað hefðbundinnar afgreiðslu verði fjárlagagerðin sveigjanlegri og til endurskoðunar allt árið um kring þannig að fjármagn fylgi þjónustu án þess þó að það gerist vélrænt. Slíkt stýrimódel tekur aldrei völdin af þeim sem er ætlað að axla ábyrgð, stjórnendum sem eiga að tryggja skilvirkan rekstur innandyra í góðu samstarfi við annað starfsfólk og stjórnmálamönnum sem lofað hafa kjósendum heilbrigðiskerfi fyrir alla.