Arnar Þór Jóns­son skrifar grein í Morgun­blaðið 19. mars þar sem hann færir gild rök fyrir því að dómur Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu (MDE) á dögunum hafi ekki verið annað en gróf inn­rás í full­veldi Ís­lands. Ég hef tekið eftir því að sumir þátt­tak­endur í um­ræðum um þetta á undan­förnum dögum hafa teflt því fram að margt gott hafi gegnum tíðina komið frá MDE okkur Ís­lendingum til handa. 

Þetta má til sanns vegar færa. Dóm­stóllinn þar ytra hefur haft á­hrif til góðs á Ís­landi. Málin sem nú eru til­nefnd til að sanna þetta eru hins vegar annars eðlis en þetta mál í því sam­hengi sem hér er rætt. 

Dómar MDE hafa ekki réttar­á­hrif hér innan­lands. Það er alveg skýrt í lögum. Hlut­verk dómsins er hins vegar að stuðla að því að grund­vallar­réttinda ein­stak­linga gagn­vart ríkis­valdinu sé gætt innan aðildar­ríkjanna. Þegar ríkin brjóta í bága við á­kvæði mann­réttinda­sátt­mála Evrópu (MSE) veitir dómurinn leið­beiningar um hvernig breyta megi lögum og reglum innan við­komandi ríkis, þannig að þau stríði ekki lengur gegn sátt­málanum. 

Þannig var það í máli Jóns Kristins­sonar á sínum tíma talið brot á mann­réttinda­sátt­mála Evrópu (MSE) að sami maður starfaði sem lög­reglu­stjóri og svo dómari í sama máli. Þessi niður­staða leiddi síðan til breytinga á ís­lenskum lögum, þar sem þetta gamla ís­lenska kerfi var af­numið. 

Í málinu sem ég flutti þar ytra um fé­laga­frelsi leigu­bíl­stjórans á árinu 1993, var komist að þeirri niður­stöðu að rétturinn til að standa utan fé­laga væri fólginn í fé­laga­frelsi sam­kvæmt MSE. Þetta leiddi til breytinga á ís­lensku stjórnar­skránni 1995, þar sem kveðið var sér­stak­lega á um þennan rétt. Öðrum laga­á­kvæðum var líka breytt vegna þessa, t.d. á­kvæðum í lög­manna­lögum um fé­lags­skyldu mál­flutnings­manna. 

Svona á MDE að virka. Veita á­bendingar um laga­reglur sem við þurfum að breyta hér á landi til að upp­fylla kröfur sátt­málans um vernd mann­réttinda. 

Ég vek at­hygli á að dómurinn núna varðar enga svona réttar­stöðu ein­stak­linga gagn­vart ríkis­valdinu sem til­efni er til að færa í betra horf með laga­breytingum. Málið varðar einungis af­markað at­vik sem búið er að af­greiða hér innan­lands með endan­legum hætti, auk þess sem öllum er ljóst að enginn efnis­legur réttur var brotinn á kærandanum. Laga­á­kvæðið um skipun dómaranna var að finna í bráða­birgða­á­kvæði með dóm­stóla­lögum og varðaði skipan 15 fyrstu dómara í Lands­rétt. Þau lög hafa runnið skeið sitt á enda og hafa ekki neina frekari þýðingu fram­vegis. Þeim þarf því ekkert að breyta. Brotið sem dóm­stóllinn taldi að hefði verið framið varðaði bara form en ekki efni og heyrir núna for­tíðinni til. 

Við þetta bætist svo að sýnt hefur verið fram á að undan­förnu að þessi dómur MDE stenst ekki að­ferða­fræði sem skylt er að beita við lög­fræði­legar úr­lausnir. Það er ekki heimilt að á­lykta, eins og sumir gera, að allir dómar þessa dóm­stóls séu góðir og gildir einungis af þeirri á­stæðu að ein­hverjir fyrri dómar séu það. Sjónar­mið í þessa átt hafa birst en eru auð­vitað ó­fram­bæri­leg. Menn færa ekki þau rök fyrir rétt­mæti dóms að við­komandi dóm­stóll hafi fyrr kveðið upp dóma sem standast skoðun. 

Það er svo býsna al­var­legt mál að bæði dóm­stólar og aðrar stofnanir hér á landi hafa stundum með­höndlað dóma MDE í ís­lenskum málum eins og um laga­lega bindandi niður­stöður hafi verið að ræða. Þetta er bein­línis and­stætt lögum okkar um þennan sátt­mála, því þar segir m.a. (2. gr. laga nr. 62/1994 um mann­réttinda­sátt­mála Evrópu): „Úr­lausnir mann­réttinda­nefndar Evrópu, mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu og ráð­herra­nefndar Evrópu­ráðsins eru ekki bindandi að ís­lenskum lands­rétti.“ Það er eins og sumir telji að þessi skýru laga­fyrir­mæli hafi ekki gildi, því þeir missa ein­hvern veginn stjórn á sér þegar dóm­stóllinn hefur talað, hversu til­efnis­laust það í raun er. 

Við skulum frekar halda á­fram að vera full­valda ríki.