Því eru mikil takmörk sett hvaða ráðstafanir eða aðgerðaleysi smáríki sem okkar getur stundað til að tryggja öryggi sitt í umróti og átökum þjóða. Þá gildir öllu stærðin, hernaðarmáttur og landlega. Þannig eru Danir og Norðmenn í þeim skilningi smáþjóðir en eru þó tuttugufalt fleiri en Íslendingar. Áhrif þeirra á ákvarðanir stórvelda liggja efalítið í samstöðu Norðurlandanna fimm.

En er sá kostur slæmur? Varla fyrir okkur sem eigum náið samstarf með öðrum þjóðum sem semja sig að grunngildum lýðræðis og frelsis. Það ómissandi samstarf er bæði tvíhliða og í beinu sambandi við nákomin félagsríki innan alþjóðasamstarfsins í Sameinuðu þjóðunum, OECD, NATO og Evrópusambandinu í EES.

Samstarf við Kína fellur ekki að stöðu Íslands vegna einræðisstefnu Kínverja og vanvirðingar gagnvart mannréttindum. Langt mál mætti gera þar úr málefnum Norðurskautsins. Þar sækjast Kínverjar eftir að hasla sér völl til varanlegrar viðveru sem og hugsanlega á Íslandi og Noregi.

Vilji og geta til að uppfylla skyldur vegna aðildar að alþjóðastofnunum er ójöfn. Því miður hefur Ísland of oft verið neðarlega í þeim efnum og það gengur ekki. Nú berast þær fregnir að Ísland hafi ekki uppfyllt skyldur samþykkta OECD um eftirlit gegn peningaþvætti og hryðjuverkastarfsemi. Alþjóðaumsvif hafa orðið umfangsmikil á ýmsum sviðum í starfi okkar fámennu stjórnsýslu en þar þarf að forgangsraða og fjölga með nýliðum, sem ætti að þjálfa í viðkomandi alþjóðastofnunum. Í þeim málum hefur utanríkisþjónustan að sjálfsögðu ríkum skyldum að gegna.

Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður, gerir þjóðaröryggi og stjórnsýslunni skil í nýlegri grein í Fréttablaðinu. Þar spyr hann hvort íslenska ríkið ætti með almennum hætti að fara með skipulagsvald vegna helstu grunninnviða landsins á grundvelli þjóðaröryggishagsmuna. Það hlýtur að vera hagsmunamál okkar allra.