Ekki verður sagt að alþjóðleg umræða í öryggis- og varnarmálum, sem varðar Ísland, sé fyrirferðarmikil á vettvangi íslenskra stjórnmála eða í almenningsmiðlum. Frá því er þó brugðið, eins og við fund ríkisleiðtoga og ráðherra NATO í London 3. og 4. þessa mánaðar. Katrín Jakobsdótir, forsætisráðherra lét vel af fundinum en hún kom meðal annars að umhverfismálum í ræðu sinni. Í sameiginlegri yfirlýsingu er því fyrst fagnað að liðin séu 70 ár af friði, sem NATO hafi tryggt og meginatriði sameiginlegrar varnarstefnu tekin fyrir. Framlög til varnarmála voru skilgreind að lágmarki og varað við fjandsamlegum aðgerðum Rússa, meðal annars með nýjum, meðaldrægum eldflaugum, sem kallar á þörf á nýjum samningi um upprætingu þeirra. Af öðru ber að nefna að sterkari aðgerða sé þörf gegn hryðjuverkastarfsemi og að fagnaðarefni er árangursrík samvinna NATO og ESB. Þá segir að vaxandi áhrif Kína í alþjóðamálum skapi í senn tækifæri og ögranir sem nauðsynlegt sé að mæta sameiginlega í NATO.

Þarfir og viðhorf NATO-ríkja í varnarmálum ráðast af landlegu, getu þeirra og öðrum þáttum, ekki síst sögulegum. Vegna nálægðar Íslands við vesturálfu , skuldbundu Bandaríkin sig að tryggja varnir og öryggi okkar með samningi þess efnis frá 1951 og skuldbindingum í NATO. En tímarnir breytast vegna tæknibyltinga, ekki hvað síst í gerð vopna, sem lamað geta tæknivæðingu framleiðslu og þjónustu, til að mynda flugsamgangna eða áróðri í tölvusamskiptum.

Eftir hersetu og skipsskaða stríðsáranna, sem svo mjög raskaði þjóðlífi og viðhorfum Íslendinga, var það mikið fagnaðarefni að varanlegan frið skyldi tryggja með stofnun Sameinuðu þjóðanna 1945. En ekki tók þá við neitt friðsældarástand. Sovétríkin brugðust undan merkjum með innlimun Austur-Evrópuríkja og óvinveittum tilburðum og áróðri í vestrænum ríkjum og þróunarlöndum. Úr því spennuástandi sprettur upp um tíma nokkur andstaða á Íslandi gegn þátttöku í þeirri vestrænu samvinnu, sem leiddi til þátttöku í stofnun NATO og stöðugrar uppbyggingar varnarstöðvarinnar í Keflavík. Sú andstaða hjaðnaði. En ef til kæmi, er staðsetning flugvallarins með sínum ratsjárbúnaði, flugskýlum og birgðageymslum, væntanlega ein öflugasta varnaraðstaðan á Norðurslóðum.

Eftir ákvörðun Bandaríkjanna um að hverfa frá Íslandi 2006, tóku NATO-ríkin, ásamt Svíþjóð og Finnlandi upp reglubundið eftirlitsflug frá Keflavík með orustuþotum og síðar hinum öflugu P-4 bandarísku leitarflugvélum. Það kom sér einkar vel, hafi Rússar og öllu fremur Kínverjar, verið haldnir einhverjum misskilningi um að strategískt tómarúm hefði orðið á Íslandi við það að fastri veru bandarísks herliðs hér lauk eftir 75 ár. Mér er í minni frá æskuárum í heimsstyrjöldinni, að uppi var upplýsingaspjald í pósthúsi með mynd af Roosevelt Bandaríkjaforseta og þeim boðskap, að þeir myndu þakka fyrir sig og kveðja við stríðslok. En það tók lengri tíma en ætlað var í fyrstu og ekki var ætlun þeirra að efna til landtöku. Það er líka fjarstætt.

Þrjú af fyrrum félagsríkjum Rússa hafa gerst aðilar að NATO og ESB. Þeir stunda mikla hernaðarlega enduruppbyggingu á Síberíuströndum heimskautsins með nýjum flotastöðvum, flugvöllum, kafbátaflota og nýrri kynslóð vopna, þar með töldum eldflaugum. Nú er því síður en svo haldið fram, að þessi vígbúnaður sé forleikur að hernaðaraðgerðum. En hann kann að hafa annað notagildi. Yfirtaka eins og sú sem framkvæmd var á Krím var án blóðsúthellinga. Slíkar yfirtökur í nútíma herfræði virðist mega framkvæma fyrst í dreifðum áföngum án beitingar sýnilegs herstyrks, það er með sálrænum og efnahagslegum aðgerðum. Var það ekki sagan á Krím?

Hafi Kínverjar séð fyrir sér óplægðan akur á Íslandi og tækifæri að byggja hér að vild mannvirki og risahöfn við nýja íslausa siglingaleið um norðurskautið, var það mat kolrangt. Síkt kemur aldrei til greina, eða að litið sé á þá sem nágranna vegna hugmynda um landakaup í Þingeyjarsýslu til uppbyggingar túrisma.

En að lokum. Er Bretland, lykilbandamaður, á privatbraut fáránlegs efnahagslegs sjálfsskaða? Sú spurning vaknar hvort Brexitumræðan hafi hrundið sjálfum frumkvöðuli þingbundins lýðræðis, breska þinginu, í slíka sjálfheldu? Það varðar hins vegar ekki framtíð Evrópusambandsins, sem vænta má að fái aukið vægi fyrir félagsríki sín.