Bæjarfulltrúar á Akureyri hafa tekið höndum saman um rekstur sveitarfélagsins og ætla að stýra því í sameiningu það sem eftir lifir af kjörtímabilinu. „Lagt er af stað í þessa vegferð í þeirri trú að með þessum hætti geti bæjarfulltrúar best þjónað því hlutverki sem bæjarbúar fólu þeim í síðustu sveitarstjórnarkosningum,“ segir í tilkynningu frá bæjarstjórninni samheldnu, sem telur að það muni reynast umbjóðendum sínum best við þær erfiðu aðstæður sem blasa við öllum kjörnum fulltrúum í heiminum, að gera hið óvænta og vinna saman.

Ákvörðun Akureyringa vekur talsverða lukku. Hún birtist flestum okkar sem vin í eyðimörk ómálefnalegra átaka, falsfrétta, and-lýðræðis og lýðskrums, sem blasir við hvert sem litið er. Hún birtist okkur sem svar við því sem við fyrstu sýn virtist barnalega óraunhæft ákall Ólafs Darra um samvinnustjórnmál, í gervi stjórnmálamannsins Benedikts í fyrsta þætti Ráðherrans á RÚV um helgina.

Öllum, sem fylgjast á annað borð með stjórnmálum, er ljóst að skoðanaskipti og gagnrýni eru nauðsynleg til að tryggja góða og vel ígrundaða niðurstöðu um þau mál sem kjörnir fulltrúar þurfa að fást við. Einn af kostum þeirrar meginreglu stjórnmálanna að meirihlutinn ráði, er að ábyrgðin er skýr. Þeir flokkar sem standa að ákvörðunum bera ábyrgð á þeim og þurfa að leggja þær í dóm kjósenda að kjörtímabilinu loknu.

Þegar alvarlegir erfiðleikar steðja að samfélögum, eins og nú, verða ákvarðanir að sama skapi afdrifaríkari. Það er erfið ákvörðun að skuldsetja sveitarfélag og varpa með því rekstrarvandanum inn í framtíðina. Niðurskurður er ekki heldur efst á lista kosningaloforða neins flokks og oftar en ekki er niðurskurður meiri í nösunum á stjórnmálamönnum en í veruleikanum sjálfum. Í þessu ljósi verður samheldni Akureyringa líka falleg. Í stað þess að fráfarandi minnihluta sé haldið utan við hinar erfiðu ákvarðanir, fær hann sæti við borðið, en axlar um leið sinn part af ábyrgðinni.

Fólk um allan heim er þreyttara á átökum en oft áður. Fólk er þreytt á stjórnmálafólki sem heimtar hömlulaus völd, en bregst gersamlega þegar það fær völdin í hendur. Þreytt á deilum deilunnar vegna og fólki sem kýs frekar að grafa undan öðrum, en verða sjálft að gagni.

Samvinna í stjórnmálum er auðvitað ekki ný uppfinning og hún er eflaust meginreglan í mörgum minni sveitarfélögum landsins. En Akureyri er alvörubær með flókinn rekstur, fjölbreyttar þarfir og ótal ólík sjónarmið. Þar finnst mörgum að fólkið í suðvestrinu mætti stundum slá örlítið af í hrokanum og læra af því sem vel er gert í norðri. Hér gæti verið ágætur staður til að byrja.