Sú var tíðin að almenningur í Evrópu og úti um fleiri álfur leit upp til Bandaríkjanna og þess kraftmikla samfélags sem þar var að finna. Horft var til þessara víðfeðmu fylkja í vestri sem fyrirmyndarríkis og haft var á orði að þetta land tækifæranna færi fyrir frjálsræði og einstaklingsfrelsi í gervöllum heiminum, en einkum af þeim sökum ræki það öflugasta og frjóasta atvinnulíf á jörðinni.

Þess utan treystu heilu og hálfu álfurnar á stórveldið í norðanverðri Ameríku, en hernaðarkraftur þess dugði ekki aðeins til að halda aftur af rússneska birninum í austri, heldur var Bandaríkjaher lengstum límið í hernaðarbandalagi Atlantshafsríkja og hinn raunverulegi máttur þess. Núna er Bandaríkjunum ekki lengur treystandi innan NATÓ.

Öldin er nefnilega önnur. Bandarísku samfélagi hefur hnignað svo á síðustu árum að vart eða ekki verður jafnað við fyrirheitna landið á síðustu öld.

Frjálsræðið hefur vikið fyrir stæku afturhaldi þar sem forpokuð kristni af karllægustu sort er notuð til að knýja áfram lygavélina um að samfélaginu sé betur komið fyrir í fortíðinni með pottlokinu ofan á fjölbreytni þess.

Svo rammt kveður að þessu íhaldi að sjálft lýðræðisfyrirkomulagið sem löngum hefur verið hornsteinn Bandaríkjanna er ekki lengur sjálfgefið, enda virðist kristilega kórvillan vera að eitra allt samfélagið, langt umfram lýðræðislegt umboð – og nægir þar að nefna afstöðu meirihluta landsmanna til þungunarrofs eftir að afturhaldsseggirnir í Hæstarétti landsins sneru frægum dómi við sem færði konum réttinn yfir eigin líkama fyrir hálfri öld.

Það er einmitt svo að fimmtíu ára vegur frjálslyndis í landinu virðist vera á enda – og nú verði snúið við á þeirri leið sem varðað hefur stóraukin réttindi kvenna, þeldökkra og hinsegin fólks í landinu, svo nokkrir hópar séu nefndir sem nú skulu lúta lögmálum biblíublindninnar.

Það er með ólíkindum að svona sé komið fyrir stórþjóðinni í vestri. Talíbanatilhneigingin sem nú veður uppi tekur á sig furðulegustu myndir á seinni árum, svo ótrúlegar raunar að draumasmiðirnir í Hollywood myndu seint eða aldrei huga að sviðsmyndum á borð við árásina á þinghúsið á síðasta ári, eða nýleg fjöldamorðin í bænum Uvalde í Texas þar sem vopnuð lögreglan beið í klukkustund fyrir utan skólastofuna á meðan morðinginn brytjaði niður börn og kennara.

Bandaríkin eru orðin land fjöldamorða á börnum. Af því að byssan er trúartáknið.