Það er ömurleg tilfinning þegar maður veit að maður hefur valdið öðrum vonbrigðum. Hún er enn sterkari þegar maður veit upp á sig sökina. Ég man vel mína fyrstu svoleiðis tilfinningu. Ég var 10 ára og í pössun hjá ömmu og afa á Bugðulæk. Ég fékk að taka hvolpinn minn Mikka með. Um nóttina át hann lesgleraugu afa. Ég var eyðilagður og þorði varla að segja gamla manninum frá því. Amma mín og afi skiptu aldrei skapi og af þeim sökum var enn sárara að bregðast þeim. Ég hefði átt að passa hundinn betur.

Nú, þrjátíu árum seinna, fann ég fyrir svipaðri tilfinningu þegar Víðir Reynisson sagði frá því á fundi almannavarna að íþróttafélög væru enn að boða iðkendur á æfingar. Íþróttahreyfingin stendur mér afar nærri og því tók ég það til mín þegar rólyndismaðurinn Víðir Reynisson lýsti vonbrigðum sínum með íþróttahreyfinguna. Þótt síðar hafi komið í ljós að vonbrigði Víðis hafi ekki fyllilega verið á rökum reist, voru þau engu að síður holl áminning. Það er mikilvægt að íþróttafélög hugi vel að sínu starfi og virði leikreglurnar.

Þótt okkur kunni að finnast reglurnar ósanngjarnar eða jafnvel óþarfar, þá eru þetta engu að síður þær reglur sem settar hafa verið, af fólki sem við treystum til verksins. Við deilum ekki við dómarana. Sýnum aðstæðum virðingu og tökum þeim af alvöru. Leggjumst öll á árarnar, leggjum skammtíma hagsmuni til hliðar og fjárfestum í sumrinu. Verum stolt þegar við getum loksins horft til baka. Því fyrr sem hefðbundið líf, með óheftum leik, getur hafist á ný, því betra. Koma svo – við getum þetta!