Í síðustu viku leið fresturinn til umsagnar um ný heildarlög um fæðingar- og foreldraorlof. Breytingarnar fela í sér að orlofið lengist úr níu mánuðum í tólf en jafnframt er lagt til að foreldrar eða forsjáraðilar fái úthlutað sitt hvorum sex mánuðunum og aðeins einn þeirra sé framseljanlegur til hins aðilans. Áður fengu foreldrar sína þrjá mánuðina hvort og þrír voru sameiginlegir.

Þó að flestir séu sammála um að lengra orlof sé gæfuspor er fólk ekki á einu máli um skiptinguna né heldur að tímabilið sem gefst til að nýta orlofið sé stytt úr 24 mánuðum í 18.

Það dylst ekki að markmiðin eru að fjarvera frá atvinnumarkaði komi ekki niður á öðru foreldrinu og að stuðla að jöfnum rétti foreldra til samveru með barni sínu þar til því býðst dagvistun á leikskóla.

Þar komum við að vandanum: Börn í Reykjavík komast almennt ekki inn á leikskóla við eins árs aldur. Þó að opinbert viðmið sé 18 mánaða er raunhæfara að horfa til tveggja ára aldurs.

Dagmömmur eða einkaleikskólar hafa verið tímabundin lausn fyrir mörg börn en er bæði kostnaðarsöm leið og plássin fá og því bregða margir foreldrar á það ráð að lengja orlofið gegn launaskerðingu.

Í umsögnum um lagabreytinguna kristallast skýr munur á því hvort horft er á orlofið út frá hagsmunum barnanna eða foreldranna og atvinnulífsins.

Þó svo Samtök atvinnulífsins styðji breytingarnar og telji þessa jöfnu skiptingu milli foreldra best til þess fallna að tryggja barni samvistir við báða foreldra, þá tala staðreyndirnar sínu máli og er nauðsyn að horfa til fleiri sjónarmiða. Tölur sína skýrt að hingað til hafa mæður nýtt sér að mestu þá þrjá sameiginlegu mánuði sem hingað til hefur verið boðið upp á.

Tónninn í umsögn Embættis landlæknis er á öðrum nótum en forsvarsmanna atvinnulífsins en þar segir að fæðingarorlof ætti að skilgreina sem rétt barns til umönnunar á fyrstu mánuðum lífsins fremur en einungis sem rétt fullorðinna á vinnumarkaði. Landlæknir vill sveigjanleika og leggur til að skiptingin verði 4-4-4.

Lokamarkmiðið hlýtur alltaf að vera að standa vörð um velferð barnsins og fjölskyldueiningarinnar. Við verðum þá að muna að fjölskyldur eru alls konar, foreldri getur verið eitt, eða aðstöðu- og launamunur foreldra mikill, áhuginn og getan er jafnvel misjöfn og þar fram eftir götunum. Foreldrar eiga sjálfir að fá að ráða sem mestu í þessum efnum. Þannig græðir barnið.

Eins standa oftast fleiri en foreldrarnir að barni, það þarf helst þorp í verkefnið og af hverju mætti ekki framselja rétt til fæðingarorlofs til ömmu, afa eða annarra, ef staðan væri þannig? Þannig væri staða fólks á atvinnumarkaði enn jafnari. Hugsum þetta út fyrir kassann.

Aðalatriðið er að þessir mánuðir falli ekki niður og barnið tapi, eins og staðreynd er að gerist allt of oft í dag.