Síðast­liðinn föstu­dag birtu rit­stjóri og að­stoðar­rit­stjóri DV yfir­lýsingu þar sem þeir segja her­ferð hafa verið setta í gang til að þagga niður um­fjöllun blaðsins sem tengdist lands­þekktum ein­stak­lingi.

Sögðu rit­stjórarnir farir sínar ekki sléttar eftir að hafa fjallað í miðli sínum um málið og lýstu þöggunar­til­burðum þeim sem hafðir voru uppi. Í raun ganga þau svo langt að tala um að reynt hafi verið að koma í veg fyrir téða um­fjöllun með á­reitni í þeirra garð, and­legt of­beldi og hótanir um að birting fréttarinnar myndi hafa af­leiðingar fyrir þau per­sónu­lega.

Um­rætt mál er ekki til um­fjöllunar í þessum pistli heldur þetta um­hverfi sem blaða­menn starfa í. Rit­stjórarnir tóku fram í yfir­lýsingu sinni að þeir hefðu á ferli sínum oft­sinnis rætt við aðila sem jafnan teljist hættu­legir sam­borgurum sínum. Þeir aðilar hafi þó ekki gerst lík­legir til að beita slíkum brögðum til að koma í veg fyrir um­fjöllun. Það sé fremur elíta landsins, fólkið sem telur sig yfir um­fjöllun hafið.

Það er nefni­lega fólkið sem ræður sér fjöl­miðla­full­trúa til að stjórna um­fjöllun um sig. Fólkið sem getur ráðið dýra lög­menn til að hóta lög­sókn ef nei­kvæð um­fjöllun birtist og fólkið sem hefur virki­legra hags­muna að gæta í því að að­eins sé fjallað um hið já­kvæða í fari þess og störfum, sem á­reitir fjöl­miðla­fólk. Til­burðir Sam­herja í þessa átt eru lík­lega lifandi í minni les­enda. Það eru oft lands­þekktir aðilar með tengingar á æðstu staði sem telja ekki eftir sér að hringja nokkur sím­töl og kippa í spotta.

En þetta virkar ekki svona, enginn er hafinn yfir rétt­mæta um­fjöllun og aldrei hef ég starfað fyrir fjöl­miðil þar sem slíkar hótanir hafa orðið til þess að prent­vélar séu stöðvaðar. Þvert á móti.

Að þurfa að liggja undir á­mæli um annar­legar kenndir, á­reiti á heimili sínu og há­værar hótanir frá aðilum máls eða jafn­vel fjöl­miðla­full­trúum sem innst inni vita mögu­lega að mál­staðurinn sem þeir fá greitt fyrir að verja er vafa­samur, er ó­líðandi starfs­um­hverfi. En þó eitt­hvað sem allt­of margir blaða­menn, og ég þar með talin, hafa upp­lifað.

Ég fagna yfir­lýsingu rit­stjóranna enda full­kominn ó­þarfi að þegja yfir slíkri hátt­semi sem í besta falli truflar líf fólks sem er ein­fald­lega að vinna vinnu sína og í versta falli skaðar eðli­lega frétta­öflun.