Heitar umræður eru um vinnuna í samtímanum og framtíðinni, bæði á Norðurlöndum og annars staðar í heiminum. Umræðan fjallar ekki síst um áhrif stafrænnar tækni á vinnumarkaðinn og kjör launafólks. En við í norrænu verkalýðshreyfingunni höfum fyrr þurft að takast á við breytingar og umskipti og erum vel undir það búin. Mikilvægustu skilaboðin frá okkur eru því eftirfarandi: Við þurfum að líta um öxl og læra af sögunni þegar við stígum inn í stafræna framtíð! Þessu munum við halda á lofti þegar sænski vinnumarkaðsráðherrann Ylfa Johansson býður nú í vikunni til norrænnar ráðstefnu um framtíð vinnunar í tilefni af 100 ára afmæli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO.

Í norrænu verkalýðshreyfingunni erum við í grundvallaratriðum jákvæð gagnvart tækninýjungum, innleiðingu stafrænnar tækni og afleiðingum hennar. Ný tækni hefur gert kleift að bæta starfsumhverfi, hækka laun og auka velferð. En á grunni reynslunnar af fyrri breytingar- og umskiptaferlum höfum við einnig ýmis uppbyggileg ráð um það sem þarf til þess að innleiðing stafrænnar tækni verði eins velheppnuð og hægt er fyrir samfélagið í heild. Lykilatriðið er norræna módelið.

Í fyrsta lagi. Launafólk verður að vera hluti af þróuninni. Skipting ávinnings af nýrri tækni á að hafa réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi, tæknin á að þjóna fólkinu. Það gerist með faglegum áhrifum stéttarfélaganna og samstarfi aðila vinnumarkaðarins. Fyrir því eru einnig sterk þjóðhagsleg rök. Sannfærandi rannsóknarniðurstöður frá OECD, AGS og Alþjóðabankanum benda til þess að hagkerfi eins og þau norrænu, þar sem stéttarfélagsaðild er almenn og kjarasamningar víðtækir, einkennast einnig af mikilli framleiðni, mikilli samkeppnishæfni og getu til að draga úr sveiflum á óvissutímum í efnahagsmálum.

Í öðru lagi. Við þurfum að fjárfesta í menntun og færniþróun. Skýr stefna um að fjárfesta í menntun og umskiptum er lyftistöng fyrir samfélagið í heild. Nýjar rannsóknir OECD sýna fram á að einkum á Norðurlöndum geti einungis lítill hluti starfa vikið að fullu fyrir sjálfvirkni. Langoftast er fremur um það að ræða að starfssviðið breytist að nokkru leyti og krefst meiri færni. Ef Norðurlönd eiga að vera samkeppnishæf í framtíðinni er því nauðsynlegt að ræða um umskipti, menntun og símenntun og fjárfesta á þessum sviðum. Færniþróun er viðfangsefni sem þarf að leysa í hverju landi fyrir sig í þríhliða samtali milli stéttarfélaga, atvinnurekanda og ríkisstjórna, á vettvangi fagsviða, starfsgreina og fyrirtækja milli aðila vinnumarkaðarins, en einnig á sjálfum vinnustaðnum milli hvers starfsmanns fyrir sig og atvinnurekanda hans.

Í þriðja lagi er skýr umræða um fjárfestingar nauðsynleg. Með nýrri tækni er hægt að auka framleiðni um leið og hún skapar tækifæri til betra vinnulífs. Hún eykur samkeppnishæfni, fyllir pöntunarbækurnar, og verður til þess að ný fyrirtæki verða til um leið og starfandi fyrirtækjum gefst kostur á að þróast áfram. Opinberi geirinn þarf einnig að fjárfesta í nýrri tækni og nýjum lausnum sem stuðla að því að norræn velferðarsamfélög haldi áfram að vera sjálfbær og fyrir alla.

Í fjórða lagi teljum við að norrænar ríkisstjórnir eigi að leggja áherslu á atvinnu fyrir alla, samstarf og skoðanaskipti aðila vinnumarkaðarins í umræðu um vinnuna í dag og til framtíðar - einnig utan Norðurlanda. Reynslan á Norðurlöndum bendir til þess. Við leggjum því til að innan ramma næstu langtíma fjárhagsáætlunar ESB (frá 2021) eigi Norðurlönd frumkvæði að nýjum sjóði á vegum ESB til til að styrkja samstarf aðila vinnumarkaðarins í því skyni að efla uppbyggingu, hæfniþróun og þróun öflugra, sjálfstæðra og skilvirkra ramma fyrir skoðanaskipti um samfélagsþróun í þeim löndum ESB þar sem þörf er á því.

Samstarf og skoðanaskipti aðila vinnumarkaðarins, samræður og samningar milli stéttarfélaga, atvinnurekanda og stjórnmálanna eru leiðin til að ræða og leita lausna á því hvernig skipta skuli ávinningi af aukinni framleiðni. Þegar atvinnulífið verður fyrir áhrifum og skipulag þess breytist að einhverju leyti af völdum stafrænnar tækni og aukinnar sjálfvirkni, þarf að ræða fyrirbæri eins og verktöku sem ekki er af fúsum og frjálsum vilja, svonefnda falska verktöku. Það er ótækt að starfsfólk í nethagkerfinu starfi í vinnuréttarlegu einskismannslandi. Við þurfum einnig að ræða skattareglur, bæði í löndunum og á alþjóðavettvangi, til að sporna gegn skattaundanskotum. Alþjóðlegum fyrirtækjum ber einnig að leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Ekki er síður mikilvægt að ræða tölvuvarnir og gagnaöryggi fyrir hvern og einn starfsmann og almenning.

Þetta er það sem einkennir norrænu löndin og norræna módelið. Að við komum auga á áskoranirnar og snúum þeim upp í tækifæri. En þá er samtal milli stéttarfélaga, atvinnurekanda og ríkisstjórna bráðnauðsynlegt svo ávinningur af nýrri tækni komi starfsfólki, manneskjum og samfélaginu til góða. Við fögnum því að Norræna ráðherranefndin hefur vakið máls á þessu málefni í tilefni af 100 ára afmæli ILO og ætlar að leggja sitt af mörkum í þróun vinnunnar í framtíðinni. En það er ekki nóg að horfa og flytja hátíðarræður. Það er nauðsynlegt að standa vörð um norræna módelið og alla þætti þess, nota það og þróa á hverjum degi. Það hefur sagan kennt okkur.

Lizette Risgaard, LO Danmark
Bente Sorgenfrey, FTF Danmark
Lars Qvistgaard, Akademikerne Danmark
Jarkko Eloranta, SAK Finland
Antti Palola, STTK Finland
Georg F. Hansen, Samtak Färöarna 
Gylfi Arnbjörnsson, ASÍ, Island
Elín Björg Jónsdóttir, BSRB, Island
Þórunn Sveinbjarnardóttir, BHM, Island
Hans-Christian Gabrielsen, LO Norge
Ragnhild Lied, Unio Norge
Jorunn Berland, YS Norge
Karl-Petter Thorwaldsson, NFS – Nordens og LO Sverige
Eva Nordmark, Ordförande, TCO Sverige
Göran Arrius, Ordförande, Saco Sverige
Magnus Gissler, framkvæmdastjóri, NFS