Með sölu á fjórðungshlut í Íslandsbanka taka stjórnvöld varfærið skref til að færa bankakerfið í átt að því sem þekkist í nágrannalöndum en hvergi í Evrópu eru hlutfallsleg umsvif ríkis í bankakerfinu jafnmikil og á Íslandi. Markmiðið er að draga úr áhættu ríkisins, sem er með meira en 400 milljarða króna bundna í bankarekstri, og hámarka endurheimtur af eignarhaldinu þegar markaðsaðstæður eru hagfelldar. Í ofanálag eykur salan svigrúm ríkisins til að ráðast í samfélagslega arðbærar fjárfestingar. Rökin með sölunni eru sterk.

Samfylkingin, sem vill láta taka sig alvarlega í efnahagsmálum og leggja áherslu á grænar fjárfestingar í komandi kosningabaráttu, hefur fátt uppbyggilegt til málanna að leggja. Flokkurinn setur sig upp á móti sölunni án þess að gefa kjósendum skýran valkost. Málflutningur um að salan sé ótímabær er ótrúverðugt yfirvarp. Flokkurinn hefur einfaldlega ekki framtíðarsýn í þessum málum.

Efnahagsráðgjafi VR, sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa vísað til, var í sjónvarpsþættinum Silfrinu á sunnudaginn. Þar var dregin upp dökk mynd. Útboð á eignarhlut ríkisins mun laða að sér áhættusækna og krosstengda fjárfesta sem munu beita sér fyrir því að Íslandsbanki gangi að veðum sínum í ferðaþjónustu. Eftirlitsyfirvöld eru enn lítils megnug gagnvart brögðum hinna fjársterku.

Þáttarstjórnandinn spurði viðmælandann að því sem margir áhorfendur veltu líklega fyrir sér. Hvernig ætla einkafjárfestar að valta yfir ríkið, sem verður áfram meirihlutaeigandi með 75 prósent, og lífeyrissjóði, sem eru líklegir til að fá dágóðan skerf í útboðinu? Ekki voru fleiri orð höfð um þetta grundvallaratriði önnur en þau að samhæfðir fjárfestar reyni allt til að ná sínu fram. Engar frekari skýringar.

Í kjölfar útsendingarinnar benti fyrrverandi aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins réttilega á, í færslu á samfélagsmiðlum, að regluverk með fjármálafyrirtækjum hefði verið stórlega hert á alþjóðavísu og væri að nokkru leyti enn meira á Íslandi en víðast annars staðar. Þá væri eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja mun áhættumiðaðra, framsýnna og ítarlegra en það áður var.

Að baki fyrirhuguðu söluferli, sem felur í sér sölu á einungis fjórðungshlut í öðrum ríkisbankanum, liggur heilmikil undirbúningsvinna og stjórnvöld hafa fært sterk rök fyrir sínu máli. Ábatinn er margþættur og áþreifanlegur. Andmælendurnir, sem aldrei eru sáttir við tímasetningu, segja á móti að eftirlit sé veikt og að minnihluti einkafjárfesta muni, þvert á vilja ríkisins, knýja fram stefnubreytingu í bankanum sem vinnur gegn þjóðarhag. Þetta eru fabúleringar sem standast ekki skoðun.