Í dag fögnum við því að hundrað ár eru liðin frá því að Íslendingar urðu fullvalda þjóð, þegar ný lög um samband Íslands og Danmerkur voru samþykkt. Sjálfstæðisbaráttan hafði tekið marga áratugi og fjöldi fólks komið að samningum um ný sambandslög þjóðanna tveggja.

Nú þegar við lítum til baka, lesum greinarnar, bréfin og bækurnar sem skrifaðar voru um málið og flettum í gegnum svarthvítu ljósmyndirnar sem teknar voru á kontórunum þar sem rifist var um sambandslögin og þau svo að lokum samþykkt, er ekki hægt að komast hjá því að sjá að þessi barátta var heldur karllæg. Samninganefndirnar sem skrifuðu uppkast eftir uppkast af nýjum sambandslögum og þingheimarnir sem rifust um þessi uppköst voru karlar, allir sem einn.

En sjálfstæðisbaráttan gekk hönd í hönd annarri baráttu sem átti eftir að breyta íslensku (og dönsku) samfélagi á enn djúpstæðari máta, baráttan fyrir kvenréttindum og kosningarétti kvenna. Íslenskar (og danskar) konur fengu kosningarétt þremur árum áður en fullveldi Íslendinga var samþykkt, reyndar ekki til jafns á við karla en þó í áttina. Þetta þýddi að íslenskar konur gátu tekið þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1918 þar sem 90,9% kjósenda samþykktu þennan mikilvæga áfanga í sjálfstæðisátt.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir, sú kona sem einna mest lagði á vogarskálarnar í baráttunni fyrir borgaralegum réttindum kvenna við upphaf tuttugustu aldarinnar, setti kvenfrelsisbaráttuna í samhengi við sjálfstæðisbaráttuna. Í útvarpsfyrirlestri á fjórða áratugnum lítur hún til fortíðar, til áranna þegar hún vaknaði til pólitískrar vitundar. „Við sem vorum ung kringum 1874 þegar sjálfstæðisbaráttan stóð sem hæst vorum full af eldmóði og hugsjónum. Okkur dreymdi dagdrauma og miklar hræringar gerðu vart við sig. Ég mótaðist þessi ár og hugsaði margt. Við gerðum uppreisn gegn hvers konar órétti hvar sem við fundum hann.“

Nú í dag þegar við fögnum 100 ára fullveldi íslensku þjóðarinnar er mikilvægt að við gleymum því ekki að fullveldið væri lítils virði ef aðeins hluti þjóðarinnar hefði notið góðs af því, að barátta fyrir frelsi og sjálfstæði þjóðar verður að vera barátta fyrir frelsi og sjálfstæði okkar allra, kvenna og karla og kynjanna allra.

Íslendingar öðluðust sjálfstæði 1944 og konur hafa nú full borgaraleg réttindi á við karla. En þó hallar enn á konur í samfélagi okkar og baráttunni sem hugsjónafólkið undir lok nítjándu aldarinnar hóf er ekki enn lokið.

Í liðnum mánuði voru birtar fyrstu niðurstöður í rannsókn Háskóla Íslands, Áfallasaga kvenna. Þær sýna að fjórðungur kvenna á Íslandi hefur orðið fyrir nauðgun eða nauðgunartilraun á lífsleiðinni og sama hlutfall hefur verið beitt líkamlegu ofbeldi. Sameinuðu þjóðirnar birtu í vikunni skýrslu þar sem fram kemur að konur eru í mestri hættu á heimilum sínum, að tæplega 60% þeirra kvenna sem myrtar eru í heiminum eru myrtar af ástvini eða fjölskyldumeðlim.

Ofbeldi gegn konum er gróft brot á fullveldi kvenna, á fullveldi okkar allra. Tökum höndum saman og upprætum kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn konum, strax! Gerum uppreisn gegn hvers konar órétti! Baráttunni er ekki lokið!