Sykur er stundum sagður hinar nýju reykingar. Hann eykur líkur á háum blóðþrýstingi, þyngdar­aukningu, fitulifur, bólgu og sykursýki. Allt þetta eykur hættu á alvarlegum veikindum ef einstaklingur smitast af Covid. Samt þykir mörgum eðlilegt að dæla í sig sykri á sjúkrabeðinu. Þá teljum við okkur umhyggjusöm með því að senda sælgæti til þeirra sem urðu veirunni að bráð. Gott ef ég hef ekki gerst sek um það.

Augljóslega hefur enginn gott af viðbættum sykri. Í grein sem birtist í Frontiers eru allar rannsóknir á tengslum sykurs og kórónuveirunnar teknar saman. Þar kemur fram að sykur eykur líkur á alvarlegum veikindum með því að ýta undir hvert einasta skref sem veiran tekur til að fjölga sér og breiða úr sér innan kroppsins. ­ Þegar blóðsykur hækkar mælist einnig meira af sykri í öndunarfærum. Sykur gefur veirum skjótfengna orku, sem keyra upp starfsemi sína og framleiðslu á mjólkursýru, sem gerir yfirborð lungna súrara, en það dregur úr áhrifum sýkladrepandi efna sem lungun nota til að verja sig gegn veirum. Lungnafrumurnar byrja þá að senda frá sér efni til að ná sýrustiginu í jafnvægi, en það gerir vökvann sem þekur lungun seigari og lélegri í að losa sig við veiruna. Sykur brýtur þannig niður náttúrulegar varnir lungnanna. Sykur hjálpar auk þess veirunni að gera mikilvæg ensím óvirk, sem eykur líkur á líffærabilun og blóðtöppum. Síðan eykur sykur líkur á ofur-ofnæmisviðbrögðum og öndunarbilun, sem dregur flesta til dauða.

Það er því deginum ljósara að með því að gefa sætindi erum við að hjálpa öðrum að veikjast. Kannski líkt og maður myndi grunlaus bjóða gestum sínum að leggja hinn japanska fisk Fugu sér til munns.