Á pestartímum kemur í hug drepsótt frá árinu 1000 sem fjallað er um í Eyrbyggjasögu. Fólkið á Fróðá hrundi niður, annaðhvort úr torkennilegri pest eða drukknaði á sjó. Allir gengu aftur og sátu við langelda á kvöldin. Varð af þessu ófögnuður mikill enda lítil gleði af sjó- og sóttdauðum draugum. Þetta voru kölluð Fróðárundrin.

Snorri goði Þorgrímsson á Helgafelli var Þórólfur sóttvarnalæknir þessara tíma. Hann lét brenna rúmföt gamallar konu sem talin var hafa borið með sér pestina. Snorri réttaði yfir draugunum og losnaði við þá. Hann einangraði bæinn og lét syngja messu og stökkva vígðu vatni um híbýlin. Bæði pestin og draugarnir hurfu frá Fróðá. Gömlu heiðnu guðirnir voru taldir standa á bak við þessi vandræði en Snorri trúði á hinn nýja sið.

Vinnubrögð heilbrigðisyfirvalda líkjast aðferðafræði Snorra goða. Hann barðist við drauga en sóttvarnaþríeykið þarf að berjast við nettröll og alls konar sérfræðinga í sóttvörnum og farsóttum sem blómstra eins og sóleyjar í hlaðvarpa. Báðar sjónvarpsstöðvarnar flytja stöðugar fréttir af veirunni með nýjustu tölum eins og á kosninganótt. Rifist er um hvort loka skuli skólum og vinnustöðum eða jafnvel landinu öllu. Dómsdagsspámenn vaða uppi með spálíkön sín sem minna á „líkindaútreikning kjarnorkustríðshönnuðanna eins og Megas segir.

Snorri goði var einn vitrasti stjórnmálamaður þjóðveldistímabilsins. Hann hefði litið aðgerðir sóttvarnayfirvalda með velþóknun. Í stað vígða vatnsins er komið handspritt en a.ö.l. eru viðbrögðin ósköp keimlík. Hann hefði líkt og Þórólfur kveðið niður falsspámenn og netdrauga með staðreyndum og æðruleysi. Snorri hefði bætt guðsorði við aðgerðir sóttvarnayfirvalda til að tryggja fullnaðarsigur en það má ekki á þessum tímum trúfrelsis og umburðarlyndis.