Stjórnarandstaða þessa lands ætti að bera sig vel og temja sér rökfestu, stillingu og viturlegan pólitískan málflutning. Því miður er hún æði langt frá þessum æskilegu markmiðum. Stjórnarandstaðan á erfitt með að leyna því hversu skelfilega ósátt hún er við valdaleysi sitt. Vansældin skín af henni og málflutningur hennar byggist um of á upphrópunum, nöldri og pirringi. Hún vill að eftir sér sé tekið en virðist ekki sjá neina aðra leið til þess en að hafa sem hæst. Þannig endurspeglar hún að vissu leyti umræðuhefðina á netmiðlum, sem er, eins og við vitum, alla jafna ekki á sérlega háu plani.
Samtími okkar einkennist um of af fordæmingum og reiðiópum. Vitanlega fer það illa með sálarlíf einstaklinga að standa stöðugt á öndinni af hneykslan eða reiði, auk þess sem það er varla líkamlega hollt. Af velvilja til stjórnarandstöðunnar er því beint til hennar að hún taki sinnaskiptum, stroki af sér fýlusvipinn, verði upplitsdjarfari og málefnalegri og hætti að skammast ógurlega út af hlutum sem skipta ekki máli. Þannig myndi henni sjálfri líða betur og þjóðin myndi taka meira mark á henni.
Stjórnarandstaðan hlýtur til dæmis að eiga merkilegri erindi við þjóðina en það að skammast þegar vinnufélagi tekur sér frí. Það var þingmönnum stjórnarandstöðunnar til lítils sóma þegar þeir hófu upp öskur um leið og þeir uppgötvuðu að fjármálaráðherra landsins hafði farið utan í skíðaferð í nokkra daga með fjölskyldu sinni. Talað var eins og fjármálaráðherra hefði brugðist skyldum sínum gagnvart þjóð og þingi með nokkurra daga fjarveru frá vinnustað. Öflugur staðgengill hans var á þingi, þannig að það var ekki eins og ráðherrann hefði skilið allt eftir í reiðuleysi.
Það var engin ástæða fyrir hamagang en stjórnarandstaðan æsti sig hása. Fjölmiðlar glöddust ógurlega enda hafa þeir afskaplega gaman af hávaða. Vitanlega komst stjórnarandstaðan í fréttirnar, eins og hún vonaðist til. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar voru látnir svara fyrir frí fjármálaráðherrans og gerðu það flestir glaðir í bragði enda liggur yfirleitt mun betur á þeim en þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Fjármálaráðherrann er víst á leið frá útlöndum eða kannski er hann nýkominn til landsins. Hann á eftir að mæta hinni geðstirðu stjórnarandstöðu og kann þá að velta fyrir sér hvort hann hefði ekki bara átt að framlengja fríið.