Stjórnar­and­staða þessa lands ætti að bera sig vel og temja sér rök­festu, stillingu og vitur­legan pólitískan mál­flutning. Því miður er hún æði langt frá þessum æski­legu mark­miðum. Stjórnar­and­staðan á erfitt með að leyna því hversu skelfi­lega ó­sátt hún er við valda­leysi sitt. Van­sældin skín af henni og mál­flutningur hennar byggist um of á upp­hrópunum, nöldri og pirringi. Hún vill að eftir sér sé tekið en virðist ekki sjá neina aðra leið til þess en að hafa sem hæst. Þannig endur­speglar hún að vissu leyti um­ræðu­hefðina á net­miðlum, sem er, eins og við vitum, alla jafna ekki á sér­lega háu plani.

Sam­tími okkar ein­kennist um of af for­dæmingum og reiði­ópum. Vitan­lega fer það illa með sálar­líf ein­stak­linga að standa stöðugt á öndinni af hneykslan eða reiði, auk þess sem það er varla líkam­lega hollt. Af vel­vilja til stjórnar­and­stöðunnar er því beint til hennar að hún taki sinna­skiptum, stroki af sér fýlu­svipinn, verði upp­lits­djarfari og mál­efna­legri og hætti að skammast ó­gur­lega út af hlutum sem skipta ekki máli. Þannig myndi henni sjálfri líða betur og þjóðin myndi taka meira mark á henni.

Stjórnar­and­staðan hlýtur til dæmis að eiga merki­legri erindi við þjóðina en það að skammast þegar vinnu­fé­lagi tekur sér frí. Það var þing­mönnum stjórnar­and­stöðunnar til lítils sóma þegar þeir hófu upp öskur um leið og þeir upp­götvuðu að fjár­mála­ráð­herra landsins hafði farið utan í skíða­ferð í nokkra daga með fjöl­skyldu sinni. Talað var eins og fjár­mála­ráð­herra hefði brugðist skyldum sínum gagn­vart þjóð og þingi með nokkurra daga fjar­veru frá vinnu­stað. Öflugur stað­gengill hans var á þingi, þannig að það var ekki eins og ráð­herrann hefði skilið allt eftir í reiðu­leysi.

Það var engin á­stæða fyrir hama­gang en stjórnar­and­staðan æsti sig hása. Fjöl­miðlar glöddust ó­gur­lega enda hafa þeir af­skap­lega gaman af há­vaða. Vitan­lega komst stjórnar­and­staðan í fréttirnar, eins og hún vonaðist til. Full­trúar ríkis­stjórnarinnar voru látnir svara fyrir frí fjár­mála­ráð­herrans og gerðu það flestir glaðir í bragði enda liggur yfir­leitt mun betur á þeim en þing­mönnum stjórnar­and­stöðunnar. Fjár­mála­ráð­herrann er víst á leið frá út­löndum eða kannski er hann ný­kominn til landsins. Hann á eftir að mæta hinni geð­stirðu stjórnar­and­stöðu og kann þá að velta fyrir sér hvort hann hefði ekki bara átt að fram­lengja fríið.