Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur opinberlega kvartað yfir skrifum Fréttablaðsins um meintan ritstuld hans á handriti úr fórum sagnfræðings, sem hann er sagður hafa notað án leyfis í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Ásgeir vandar blaðinu ekki kveðjurnar í skrifum sínum og telur fréttaflutning þess hafa verið óvandaðan, ef ekki beinlínis óþarfan.
Ásgeir Jónsson er auðvitað frjáls að sínum skoðunum, en í þessu efni sem öðru fer best á því að vitna í staðreyndir, svo og stöðu Ásgeirs sjálfs í samfélaginu. Hann verður nefnilega að una því sem opinber persóna, að um störf hans sé fjallað með gagnrýnum hætti. Og almenningur í landinu á einnig heimtingu á að vita hvernig æðstu stjórnendur landsins rækja störf sín, með eftirgrennslan fjölmiðla.
Fréttaskrifin um ritstuldarmálið meinta má rekja aftur til upphafsdaga desember á nýliðnu ári þegar Árni H. Kristjánsson sagnfræðingur afhenti ritstjórn blaðsins ófullgerða greinargerð sína um vinnulag Rannsóknarnefndar Alþingis, sem Ásgeir starfaði fyrir á árunum eftir hrun, en Árni taldi einsýnt að nefndin, þar á meðal Ásgeir, hefði notað rannsóknir sínar og skrif án leyfis – og hvað þá vitnað til viðeigandi heimilda. Rannsóknarnefndin hafi svo viðurkennt ritstuldinn í greinargerð til Alþingis í ágúst 2014.
Ástæða þess að Árni benti Fréttablaðinu á ofangreint mál, er að nokkrum dögum fyrr hafði sami Ásgeir verið sakaður um ritstuld af Bergsveini Birgissyni rithöfundi, sem fullyrti að Ásgeir hefði byggt á bók sinni, Leitin að svarta víkingnum, í sinni eigin bók, Eyjan hans Ingólfs, án þess að geta þar rannsókna Bergsveins. Ásgeir hafi neitað sök í þeim efnum og furðað sig á því að hafa þar verið „þjófkenndur í fyrsta skipti.“
Þetta vildi Árni leiðrétta með ábendingu sinni til Fréttablaðsins.
Og úr þessum efniviði varð frétt, vitanlega, byggð á ítarlegum heimildum, enda telst það til tíðinda þegar einn æðsti ráðamaður þjóðarinnar er vændur um ritstuld á ferli sínum sem fræðimaður og síðar yfirmaður á lykilstofnun í landinu. Og sérstaklega var gætt að því á ritstjórn að veita Ásgeiri ráðrúm til andsvara áður en fréttin var birt.
Fréttin fjallaði um alvarlegar ásakanir fræðimanns á hendur einum æðsta stjórnanda landsins um meintan ritstuld, á meðan ásakanir rithöfundar um sama efni í garð sama stjórnanda voru í hámæli.
Það kallar á fréttaskrif, ekki þöggun.