Hákon Hákonarson Noregskonungur kyrrsetti þá frændur mína Órækju Snorrason og Þórð kakala Sighvatsson við norsku hirðina á 13. öld. Þeir lögðust í sukk og þunglyndi og dóu báðir úr heimþrá og hreinum leiðindum eftir þrjú til fjögur ár í Noregi.

Íslenskir fjölmiðlamenn hafa lengi gert sér dælt við brottflutta Íslendinga. Ég hef lesið ótal viðtöl við útflytjendur sem hafa úthúðað veðri og verðlagi á Íslandi og dásamað nýja landið. Margir flýttu sér svo mikið að aðlagast að þeir fóru að tala móðurmálið með ýktum hreim. Mun sjaldnar er rætt við fólk sem flutt hefur heim aftur eftir langa dvöl erlendis, langþreytt á sænskum hroka, norskum leiðindum og danskri sjálfumgleði. Sumir gáfust upp á því að vera útlendingar allt sitt líf.

Kóvíðfárið hefur komið í veg fyrir fólksflutninga milli landa. Fréttamanni RÚV þótti því mikil tíðindi á dögunum að amerísk-íslensk fjölskylda skyldi ákveða að flytja frá Kaliforníu til Íslands. Fréttaspyrillinn virtist vart trúa sínum eigin eyrum, að einhver skyldi yfirgefa Bandaríkin til að flytjast hingað. Spurningarnar voru hver annarri kjánalegri og afhjúpuðu minnimáttarkennd vesalings spyrilsins. Hann sagði í lokin með undrunartón í röddinni að hjónin gætu jafnvel hugsað sér að vera áfram á Íslandi eftir kóvíð.

Ég ímyndaði mér að Órækja og Kakalinn hefðu fengið fararleyfi frá Noregi. Viðkomandi fréttamaður hitti þá í Leifsstöð og spyrði í beinni: „Hvernig dettur ykkur í hug, piltar, að yfirgefa Noreg þar sem olía og hunang drýpur af hverju strái?“ Þeir frændur svöruðu að Sturlungasið: kveiktu í flugstöðinni, gengu í land glottandi og föðmuðu fósturjörðina innilega.