Þorsteinn Víglundsson skrifar í Fréttablaðið 4. febrúar sl. um brotthvarf Breta úr Evrópusambandinu og þykir það vont. Tveir látnir Bretar eru kallaðir til vitnis í greinni. Báðir voru stríðsherrar. Annar ferðaðist víða um lönd til að drepa fólk þúsundum saman, meðal annars í dansk-íslenska ríkinu. Hinn lagði drjúgt af mörkum til að taka milljónir manna af lífi rúmri öld síðar. Allt var það gert til að þjóna meintum hagsmunum ríkisins sem þeir unnu fyrir.

Þessir herrar eru frelsishetjur í boðskap greinarhöfundar. Það er sérkennileg nafngift og ber vott um að höfundur hafi af lífi og sál gengið inn í menningarheim þeirra ríkja sem mestu hafa ráðið í Evrópu öldum saman og ráða flestu innan Evrópusambandsins núna. Lengur en Evrópubúar hafa kunnað að lesa og skrifa hafa stjórnendur í Evrópu haft það fyrir stafni að bítast um völd og áhrif og finna landamærum nýja og betri staði. Við þá iðju hefur flestu mátt fórna, ekki síst fólki sem fátt hafði til saka unnið. Því var slátrað þúsundum saman, og í milljónatali þegar komið var fram á 20. öld. Þeir sem sigruðu hverju sinni hlutu að launum aukin völd og meiri auð og þeir leiðréttu landamæri til samræmis við eigin meintu þarfir. Að auki urðu þeir frelsishetjur í sinni heimasveit, að minnsta kosti um hríð. Líkt og svo margir Evrópubúar sér Þorsteinn frelsishetjur þar sem þeir sem síður eru innblásnir af Evrópuanda sjá lakari menn. Það fer ekki á milli mála hver raunveruleg heimasveit Þorsteins er.

Í fyrrgreindri grein er talið upp sitthvað sem flestum finnst fagurt og gott og útskýrt að Bretar hafi snúið við því baki með því að yfirgefa Evrópusambandið. Allt er það úr lausu lofti gripið. Bretar fóru ekki vegna þess að þeir höfðu gefist upp á frelsi, mannréttindum, mannúð, jöfnuði, lýðræði og samvinnu þjóða. Um það eru engar vísbendingar. Þeir fóru vegna þess að þeir töldu sig vera að drukkna í sívaxandi flóði af ónauðsynlegum og íþyngjandi lögum og reglum og breskur verkalýður var að auki orðinn uppgefinn á að búa við óþrjótandi uppsprettur af ódýru erlendu vinnuafli.

Brotthlaup Breta úr Evrópusambandinu snertir Íslendinga. Í fyrsta lagi staðfestir aðdragandi þess að sambandið gengur langt til að það koma í veg fyrir að einhver hlaupist á brott. Það kemur auðvitað engum á óvart, þannig eru flest ríki og sérstaklega stórveldi. Þótt Bretar hafi á endanum sloppið út er margt sem bendir til þess að ógjörningur sé fyrir smærri ríki að sleppa. Í öðru lagi hefur nú sjálfstæðum viðskiptavinum Íslendinga á alþjóðavettvangi fjölgað um einn. Það gæti reynst vel seinna meir.