Þegar búið er að setja strangar reglur vegna slæmra at­burða sem hafa skyndi­lega orðið í þjóð­fé­laginu er iðu­lega furðu erfitt að af­létta þeim. Það er nánast ætlast til að ein­staklingar sætti sig sjálf­krafa við höftin, jafn­vel þótt engin þörf sé á þeim lengur. Þetta er ein­mitt nokkuð sem á­stæða er til að hafa á­hyggjur af þessa stundina. CO­VID-að­gerðir um heim allan hafa heft frelsi fólks í miklum mæli. Hér á landi hafa ráða­menn og sótt­varna­yfir­völd all­nokkrum sinnum sagt að mikil­vægt sé að þessi höft festist ekki í sessi heldur sé skylt að af­létta þeim þegar á­standið er orðið nokkurn veginn eðli­legt. Vonandi er þessum aðilum full al­vara með þeim full­yrðingum sínum. Það er skiljan­legt og örugg­lega skyn­sam­legt að taka hæg skref í átt að af­léttingu hafta en skrefin þarf samt að taka og með til­komu bólu­efnis eiga þau öll að vera fram á við. Og svo kemur að því að fólk öðlast sitt fyrra frelsi.

Það á ein­fald­lega ekki að vera mögu­leiki í stöðunni að við­halda ströngum reglum sem tak­marka frelsi fólks vegna þess að hugsan­lega gæti eitt­hvað slæmt gerst í fram­tíðinni. Það er vond að­ferð við að lifa lífinu að vera sí­fellt að velta því fyrir sér hvaða hörmungar gætu næst dunið yfir mann. Stjórn­völd í lýð­ræðis­ríkjum eiga ekki að taka að sér að ala á slíkri hugsun meðal lands­manna og hefta frelsi fólks undir því yfir­skini að verið sé að vernda það fyrir hugsan­legum ógnum sem ekki er þó vitað ná­kvæm­lega hverjar eru. Það eru einungis ein­ræðis­stjórnir sem haga sér á þennan hátt og kalla fyrir vikið mikið böl yfir al­menning.

Í sjón­varps­fréttum RÚV síðast­liðið þriðju­dags­kvöld birtust tvær ungar konur á skjánum, Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra og Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir ferða­mála­ráð­herra. Þær tjáðu sig um þær góðu fréttir að bólu­setningar og mót­efna­vott­orð frá löndum utan Schen­gen muni verða tekin gild við komuna til landsins. Þær lögðu á­herslu á að þetta myndi breyta miklu fyrir ferða­þjónustuna og at­vinnu­lífið. Þór­dís sagði að hér væri líka um sann­girnis­mál að ræða, þeir sem gætu sýnt vott­orð um að þeir væru með mót­efni eða komnir með bólu­efni ættu að vera frjálsir ferða sinna.

Þór­dís og Ás­laug Arna hafa marg­oft talað á þann hátt að ljóst er að þær hafa sann­færingu fyrir því að ein­staklingar eigi að njóta at­hafna­frelsis í lífinu og að þær hamlandi reglur sem settar voru vegna far­sóttar eigi alls ekki að vera við lýði þegar henni lýkur. Báðar eiga þær hrós skilið fyrir að standa frelsis­vaktina. Sjálf­sagt sjá ein­hverjir þó ein­mitt á­stæðu til að skammast í þeim vegna þessa, enda eru nöldrararnir alls staðar og þagna aldrei. Ás­laug Arna og Þór­dís Kol­brún ættu ekki að leggja þar við hlustir. Stjórn­mála­menn eiga að vera sterkari en svo að þeir láti full­trúa stöðugrar nei­kvæðni og spúandi reiði koma sér úr jafn­vægi.

Stjórn­mála­menn eiga að standa vörð um frelsi ein­stak­linga og opins sam­fé­lags. Þeir sem gera það ekki eru full­kom­lega ó­þarfir.