Eftir að hafa tekið þátt í kosningabaráttu í þrígang er áhugavert að vera áhorfandi - og hafa frelsi til að hafa skoðanir. Einn kostur þess að standa fyrir utan er að taka kalt mat á málefni og frambjóðendur.

Ég hef því velt töluvert fyrir mér hvað það er sem muni ráða atkvæði mínu. Heilinn segir að það verði málefni flokkanna. Tilfinningarnar ýta í þá átt að atkvæðið fari til frambjóðenda sem mér þykja sæmilega viðkunnanlegir. Þegar í kjörklefann er komið held ég þó að ísköld skynsemin taki yfir. Þá skiptir ekki máli hversu mikið frambjóðendur brosa á auglýsingum, hvernig þeim gengur í kappræðum, hversu mikið hrátt hakk þeir borða eða hversu uppblásin hneykslan þeirra er á keppninautunum.

Mér var eitt sinn sagt að kjaftæðisþröskuldur minn væri full lágt stilltur, ég hefði sem sagt litla þolinmæði fyrir vitleysu. Þessa dagana birtist þröskuldurinn gjarna þegar óraunsæir loforðapakkar eru kynntir. Þá nota ég útilokunaraðferðina og kýs viðkomandi flokk af eyjunni.

Nú þegar rétt rúm vika er í kosningar sveiflast ég á milli þess að hafa ekki hugmynd um hvað ég ætla að kjósa - og þess að vera algjörlega sannfærð um hvaða einstakling ég vilji sjá á stól forsætisráðherra. Eðli málsins samkvæmt ætti ég því að kjósa flokk viðkomandi.

Raunsæið mun í það minnsta ráða. Er hægt að uppfylla loforðapakkann? Hvað kostar hann skattgreiðendur? Er flokkurinn stjórntækur? Frelsið er nefnilega yndislegt, og ég geri það sem ég vil.