Það kom örlítið skarð í ríkiseinokun í vikunni, þegar íslenskum áfengisframleiðendum var leyft að selja beint til einstaklinga, í stað þess að selja bara í gegn um áfengissölu ríkisins og veitingastaði. Sumir vilja meina að þetta hafi tíðkast, þó það hafi ekki farið hátt. En, jú. Nú geturðu heimsótt uppáhaldsbjórframleiðandann og endað á gjafavörusölunni, þar sem hægt er að kaupa bjór með heim, alveg löglega. Alveg eins og þú getur farið og heimsótt Friðheima, skoðað tómataræktun og gengið út með alls konar útgáfur af tómötum: ferskum, maukuðum eða niðursoðum.
Þetta er ekki fyrsta skarðið í einokunina. Nokkrar netsölur eru til sem senda jafnvel heim. Það er hægt að skoða mismunandi verð á sömu vöru og velja mestu þjónustuna og/eða lægsta verðið. Sumir selja jafnvel áfengi á sunnudögum fyrir þau sem langar í vín með sunnudagsgrillinu í sumar en gleymdu að fara í Vínbúðina.
Helstu rök þeirra sem vilja halda einokuninni og helst læsa alla sölu áfengis þar inni, er að aukið aðgengi auki áfengisvandann á Íslandi. Eins og viljinn til að drekka áfengi dofni við það að það sé erfitt að nálgast næstu Vínbúð. Hefur fólk ekki þurft að panta áfengi með póstinum? Eða keyrt hátt í klst. aðra leið í næsta Ríki? Vorum við í of miklu blakkáti síðustu tvo áratugi 20. aldar? Aðgengið var erfitt en drykkjumenningin var sterk og ekkert sem stöðvaði hana. Nú er aðgengið auðveldara en menningin er með mun veikari prómill. Við skiptum út vodkanu fyrir rauðvín. Unglingarnir drekka minna. Þrátt fyrir aukið aðgengi. Er ekki kominn tími til að treysta fullorðnu fólki fyrir eigin innkaupum?