Það kom ör­lítið skarð í ríkis­ein­okun í vikunni, þegar ís­lenskum á­fengis­fram­leið­endum var leyft að selja beint til ein­stak­linga, í stað þess að selja bara í gegn um á­fengis­sölu ríkisins og veitinga­staði. Sumir vilja meina að þetta hafi tíðkast, þó það hafi ekki farið hátt. En, jú. Nú geturðu heim­sótt upp­á­halds­bjór­fram­leið­andann og endað á gjafa­vöru­sölunni, þar sem hægt er að kaupa bjór með heim, alveg lög­lega. Alveg eins og þú getur farið og heim­sótt Frið­heima, skoðað tómataræktun og gengið út með alls konar út­gáfur af tómötum: ferskum, maukuðum eða niður­soðum.

Þetta er ekki fyrsta skarðið í ein­okunina. Nokkrar net­sölur eru til sem senda jafn­vel heim. Það er hægt að skoða mis­munandi verð á sömu vöru og velja mestu þjónustuna og/eða lægsta verðið. Sumir selja jafn­vel á­fengi á sunnu­dögum fyrir þau sem langar í vín með sunnu­dags­grillinu í sumar en gleymdu að fara í Vín­búðina.

Helstu rök þeirra sem vilja halda ein­okuninni og helst læsa alla sölu á­fengis þar inni, er að aukið að­gengi auki á­fengis­vandann á Ís­landi. Eins og viljinn til að drekka á­fengi dofni við það að það sé erfitt að nálgast næstu Vín­búð. Hefur fólk ekki þurft að panta á­fengi með póstinum? Eða keyrt hátt í klst. aðra leið í næsta Ríki? Vorum við í of miklu blakk­áti síðustu tvo ára­tugi 20. aldar? Að­gengið var erfitt en drykkju­menningin var sterk og ekkert sem stöðvaði hana. Nú er að­gengið auð­veldara en menningin er með mun veikari prómill. Við skiptum út vodkanu fyrir rauð­vín. Ung­lingarnir drekka minna. Þrátt fyrir aukið að­gengi. Er ekki kominn tími til að treysta full­orðnu fólki fyrir eigin inn­kaupum?