Kol­brún Berg­þórs­dóttir, sem ég hef í há­vegum, skrifaði um daginn grein í Frétta­blaðið þar sem hún brýndi fyrir okkur nauð­syn þess að standa vörð um frelsið, nú þegar lag kann að vera fyrir ráð­ríka stjórn­endur að seilast í völdin og þrengja kosti okkar til lang­frama, með Kófið sem skálka­skjól. Þetta er mikil­væg á­bending sem ég tek heils­hugar undir. Það á aldrei að vera auð­sótt mál að við gefum frá okkur réttindi okkar.

Undir lok greinar Kol­brúnar örlar á mis­skilningi sem er furðu út­breiddur, enda sumir aðilar sem sjá sér hag í því að kynda undir hann og við­halda honum. Kol­brún skrifar:

„Það má ekki fara svo að frelsis­skerðing þyki nánast sjálf­sagt og eðli­legt við­bragð við erfiðu á­standi. Það var því bein­línis upp­lífgandi að hlusta ný­lega á dóms­mála­ráð­herra, Ás­laugu Örnu Sigur­björns­dóttur, í Silfrinu á RÚV, tala af festu og á­kveðni um mikil­vægi þess að standa vörð um frelsi fólks. Ás­laug Arna lagði sömu­leiðis ríka á­herslu á að tak­markanir eins og þær sem verið hafa megi alls ekki festast í sessi. Fleiri stjórn­mála­menn mættu tala á þennan hátt. Þeir gera það samt ekki margir, sannar­lega ekki á vinstri væng stjórn­málanna. Stundum þarf ein­fald­lega að treysta á Sjálf­stæðis­menn. Alls ekki oft – en samt stundum.“

Hug­myndin um frelsið og bar­áttan fyrir því, er grunn­stoð jafnaðar­menns­kunnar. Það gildir um frelsi ein­stak­lingsins til að tjá hug sinn og skoðanir án þess að þurfa að óttast of­sóknir. Það gildir um kyn­hneigð og þann rétt að tjá hana og haga lífi sínu í sam­ræmi við hana, án þess að þurfa að óttast of­sóknir. Það gildir um trú og þann rétt að iðka hana, án þess að þurfa að óttast of­sóknir. Það gildir um við­skipti og þann rétt að stunda þau, án þess að þurfa að óttast til­raunir til að ryðja manni burt af markaði. Það gildir um at­vinnu­réttindi og þann rétt að semja með fé­lögum sínum um kaup og kjör. Það gildir um stjórn­mála­þátt­töku og þann rétt að halda á lofti skoðunum sem minni­hluti fólks tekur undir – svo að eitt­hvað sé talið.

Frelsið er heilagt og mikils­verðasti réttur hvers ein­stak­lings. Rétturinn til þess er al­tækur. En við megum ekki rugla saman frelsi og rétti til þess að beita aðra of­ríki eða of beldi. Það er ekki frelsi að hafa leyfi til að ógna fólki. Frelsið er ekki fólgið í að hafa leyfi til þess að veifa byssum og öðrum vopnum. Það er ekki frelsi að stela frá fólki. Frelsinu fylgir ekki leyfi til þess að veitast að fólki vegna litar­háttar eða annarra út­lits­ein­kenna. Það er ekki frelsi að hafa leyfi til þess að mis­nota sér veika stöðu fá­tæks fólks til að greiða því smánar­laun, en neita að semja við það. Frelsið snýst ekki um að sóa auð­lindum Jarðarinnar og skilja eftir handa af­kom­endum okkar ó­bæri­leg lífs­skil­yrði.

Í frelsinu býr ekki vald yfir öðrum og lífi annarra. Frelsið endar þar sem of­ríkið hefst. Því hefur hins vegar mark­visst verið haldið á lofti af hörðum markaðs­hyggju­mönnum að frelsið felist ein­mitt í réttinum til vald­beitingar, að hinn sterki geti farið sínu fram að vild gagn­vart þeim veikari í krafti auðs og valda. Því hafna jafnaðar­menn. Frelsi ein­stak­lingsins felst í því að hann hafi mögu­leika til að þroska sig og hæfi­leika sína og eigin­leika, vaxa og dafna á eigin for­sendum svo að best nýtist, bæði honum og sam­fé­laginu: for­senda þess er að hver og einn búi við mann­sæmandi lífs­kjör.

Án jöfnuðar er ekkert frelsi. Án frelsis enginn jöfnuður.