Ný bylgja Covid varpar skugga yfir íslenskt samfélag. Vissir ráðherrar innan ríkisstjórnarinnar hafa þó látið í ljós efasemdir um að rök séu fyrir sóttvarnaaðgerðum.

Óvissan er sannarlega mikil. Hvaða áhrif hafa bólusetningar á sjúkdóminn og útbreiðslu hans? Er raunveruleg hætta á að heilbrigðiskerfið kikni undan álagi? Eitt er þó engum vafa undirorpið: Þeir sem láta í veðri vaka að valið standi milli fangelsis sóttvarnaaðgerða annars vegar og almenns frelsis hins vegar fara með fleipur.

Síðastliðinn mánudagur var svo kallaður „frelsisdagur“ hér á Englandi þar sem ég bý. Þann dag var þeim fáu sóttvarnareglum sem enn voru við lýði aflétt. Boris Johnson forsætisráðherra hafði búið sig undir að marka tímamótin með ræðu í anda ræðu Churchill við sigur í heimsstyrjöldinni síðari. Háleit áformin féllu hins vegar um sjálf sig þegar í ljós kom að frelsið leit öðruvísi út en hann hafði ímyndað sér.

Þótt bólusetningarátak Bretlands sé með þeim best heppnuðu í heimi hefur nýgengi Covid-smita aukist á ógnarhraða síðustu vikur. Í aðdraganda „frelsisdagsins“ hvöttu 1.200 vísindamenn stjórnvöld til að fresta afnámi sóttvarna sem þeir sögðu „siðlausa tilraun“. Skoðanakönnun sýndi að almenningur var sammála. En Boris sat við sinn keip.

Þegar „frelsisdagurinn“ rann upp var forsætisráðherrann kominn í sóttkví. Sama gilti um fjármálaráðherrann. Heilbrigðisráðherrann var veikur af Covid-19. Keir Starmer, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sagði afléttingu sóttvarna í miðri bylgju „glapræði“ og að „hætta væri á að grípa þyrfti til enn harðari aðgerða síðar meir.“ Tveim dögum síðar var Keir kominn í sóttkví ásamt einu barna sinna sem greinst hafði með kórónaveiruna.

Sama dag voru milljón börn frá skóla vegna Covid-smita sem komið höfðu upp í sóttvarnarhólfum. Starfsfólk á almennum vinnumarkaði var í auknum mæli veikt eða hafði verið skikkað í sóttkví. Fyrirtæki lokuðu vegna skorts á vinnuafli; verksmiðjur, veitingastaðir. Hillur stórmarkaða stóðu tómar. Spítalar þurftu að aflýsa skurðaðgerðum.

Leikhúsfrömuðurinn Andrew Lloyd Webber barðist hart gegn sóttvörnum í faraldrinum og hótaði að fara í mál við stjórnvöld fengi hann ekki að setja á svið nýjasta söngleik sinn, Öskubusku, fyrir fullu húsi. Draumur Lloyd Webber um frelsi undan höftum hafði ekki fyrr ræst en draumurinn breyttist í martröð. Einn leikaranna í Öskubusku veiktist af Covid svo að fresta þurfti langþráðri frumsýningunni sem fara átti fram á „frelsisdaginn“.

Það eru ekki aðeins sóttvarnaaðgerðir sem skerða frelsi á tímum Covid. Frelsi Andrew Lloyd Webber til að fylla leikhús af fólki skerðir frelsi barna til órofinnar skólagöngu. Frelsi mitt til að fljúga til Íslands frá London, helstu gróðrarstíu Delta-afbrigðisins í Evrópu, skerðir frelsi barnshafandi kvenna á Íslandi, sem flestar eru óbólusettar, til að fara í Krónuna að kaupa í matinn. Útbreidd kórónaveirusmit valda veikindum og skerða þannig frelsi fólks til að afla sér lífsviðurværis. Tómar hillur verslana skerða frelsi okkar til að kaupa humar og hvítvín á sunnudögum sem og á öðrum dögum.

Englendingar endurheimtu frelsi sitt í vikunni. Engu að síður búa margir við meiri höft nú en fyrir „frelsisdaginn“.

Fátt er mikilvægara en að vera á varðbergi gagnvart stjórnvöldum er þau skerða frelsi borgaranna. Staðreyndin er hins vegar sú að á tímum heimsfaraldurs er frelsið jafnvægislist. Hvort vegur þyngra: Óhindrað streymi ferðamanna um landamæri eða hindrunarlaust skólastarf í haust? Grímulaus verslunarleiðangur eða gestagangur á öldrunarheimilum? Þeir sem láta eins og hægt sé að komast hjá því að forgangsraða frelsi fólks á tímum Covid eru að blekkja sjálfa sig – eða aðra.