Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil,“ sungu Nýdanskir réttilega. En ég sé það sífellt betur að frelsið er ekki jafn auðvelt í meðförum og Björn Jörundur gaf til kynna og nú ríður á að við kunnum að fara með það. Til dæmis, að við kjósum að gera það sem er heildinni fyrir bestu, jafnvel þó það sé að loka sig inni. En við slíkar aðstæður gefst þó færi á að hugsa, meðal annars um frelsið.

Í mínu útgöngubanni datt ég meðal annars niður á þetta: Sá sem vill nýta sitt frelsi til hins ýtrasta, og fara gegnum lífið líktog það væri hlaðborð á Hótel Holti, fer gjörsamlega á mis við gæfuna. Það er að segja, sá sem ætlar að smakka á öllu því besta sem lífið hefur uppá að bjóða, einsog býfluga sem fer milli blóma, er vís með að uppskera aðeins yfirborðskennda reynslu. Er ekki einna erfiðast við frelsið að fríka ekki út á valkostunum? Velja vel og sinna því vel sem þú velur?

Stundum heyri ég suma tala einsog það eigi ekki að þurfa að eiga við fólk sem sé óáhugavert eða ef ekkert er uppúr því að hafa. Ég held að þessi misráðnu frelsisvísindi séu frá amerískum sjálfshjálpargúrúum sem gleyma því að fegurð lífsins finnst oftast þar sem síst er að vænta.

Að lokum: Ef við förum ekki vel með frelsið er líka óþarfi að hugsa um það því þá verður engu frelsi fyrir að fara. Hvað segir Nýdönsk um það?