Líklega erum við sem samfélag ekki komin lengra í jafnréttismálum en svo, að konur sem láta í sér heyra á vinnumarkaði eru sagðar vera frekar, en karlar sem haga sér með sama hætti teljast vera ákveðnir.

Mál einu hlaðkonunnar á Reykjavíkurflugvelli sem Fréttablaðið greindi frá á þriðjudag er erkidæmi um þennan veruleika; hún reyndist jú sem trúnaðarmaður á vinnustaðnum vera helst til óþægur ljár í þúfu og verja hagsmuni starfsfélaga sinna full til djarflega – og var fyrir vikið sagt upp störfum fyrir þær sakir að vera „hvöss í tali og erfið.“

Fréttinni var fylgt eftir næsta dag þar sem Gyða Margrét Pétursdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands, sagði að svo virtist sem mál hlaðkonunnar væri eitt af þrástefjunum um kynjaðar hugmyndir. Mál hennar veki upp spurningar um viðhorf og orðræðu, en konur hafi, þegar til kastanna komi, minna rými en karlar til tjáningar og athafna í störfum.

Við erum sum sé ekki komin lengra sem samfélag í þessum efnum en að framkoma, talsmáti og hegðun eru metin á ólíkan máta eftir því hvaða kyn á í hlut. Og enn er það svo, í raun og sann, að konur úti á vinnumarkaðnum – og kannski líka heima fyrir – eigi helst af öllu að vera vingjarnlegar og halda sér til hlés, en ruggi þær bátnum megi þær teljast heppnar að falla ekki fyrir borð, af sjálfdáðum eða annarra manna völdum.

Freki karlinn er enn þá valdamestur kynjanna á Íslandi. Hann þykir álíka klár og hann er fylginn sér – og fer mikinn á fundum þar sem konur hafa á stundum verið hafðar til punts, en leggi þær eitthvað til málanna er geispað meira en hlustað.

Þessar viðtökur þekkja konur úti í atvinnulífinu. Allar bestu hugmyndirnar virðast enn vera ættaðar úr orðavaðli karlanna, en athugasemdirnar kvennanna, dirfist þær að láta þær í ljósi, lýsa ýmist vanmætti þeirra eða vankunnáttu á hefðum og þeim leiðum sem helst og best hafa virkað í karllægu samfélagi.

Við höldum að þetta sé að breytast. Og mjög líklega er þetta að breytast. En sennilegar hægar en við töldum. Við teljum nefnilega að kynjajafnréttinu hafi verið náð, þótt raunin sé önnur.

Þess vegna á mál hlaðkonunnar á Reykjavíkurflugvelli að vera okkur rækileg áminning.