Vaxandi á­hugi er á nýtni­hag­kerfinu hér­lendis; aukinni endur­nýtingu og endur­vinnslu. Á­huginn virðist mestur hjá fólki undir fer­tugu og er sá hópur til dæmis lang­stærsti við­skipta­vina­hópur verslana með notuð föt og aðra nytja­hluti sem eru sá hluti nýtni­hag­kerfisins sem vex hvað hraðast.

Vöxtur hér­lendis í sölu á notuðum fötum og hús­gögnum er ekkert eins­dæmi og sama þróun á sér stað í öðrum löndum. Í Bret­landi og Banda­ríkjunum er á­líka vöxtur. Í Bret­landi var á­kveðið að breyta þeirri í­mynd sem var á sölu notaðra hluta (used goods) og var þá tekið upp heitið „pre­loved goods“. Ekki er komið neitt gott ís­lenskt heiti á þetta en ein til­laga sem skotið hefur upp kollinum með notuð föt er „frá­skilin föt“.

Sam­kvæmt upp­lýsingum sem starfs­hópur um flýtingu hring­rásar­hag­kerfisins hefur aflað eru um 40 aðilar hér­lendis sem sinna sölu á frá­skildum nytja­hlutum. Skipta má þessum aðilum í tvo megin­flokka:

Í fyrsta lagi er um að ræða verslanir með fatnað og nytja­vöru sem starf­ræktar eru af fé­laga­sam­tökum eða hinu opin­bera. Má þar nefna Góða hirðinn og Rauða­kross­búðirnar.

Í öðru lagi er um að ræða verslanir sem reknar eru af einka­aðilum og bjóða aðal­lega föt, hús­gögn og nytja­hluti sem gjarnan nýta vefinn sér til hags.

Allt bendir til þess að vöxtur sé í báðum þessum flokkum. Gera má ráð fyrir að velta stóru verslananna með frá­skilda nytja­hluti sé 8-900 milljónir á árinu 2022.

Mjög á­huga­vert er síðan að skoða einka­fyrir­tæki sem hafa skotið upp kollinum á þessu sviði undan­farin ár. Velta tíu stærstu fata­verslananna á milli áranna 2020-2021 jókst um allt að 35% og nam röskum hálfum milljarði króna.

Við eigum mikið verk fyrir höndum þegar kemur að hring­rásar­hag­kerfinu. Ný hring­rásar­lög um flokkun heimilissorps taka gildi um ára­mótin. Það verður á­skorun en á­batinn verður mikill. Við eigum að leita að tæki­færunum líkt og áður­nefndir aðilar gera. Það marg­borgar sig.

Höfundur er umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.