Vaxandi áhugi er á nýtnihagkerfinu hérlendis; aukinni endurnýtingu og endurvinnslu. Áhuginn virðist mestur hjá fólki undir fertugu og er sá hópur til dæmis langstærsti viðskiptavinahópur verslana með notuð föt og aðra nytjahluti sem eru sá hluti nýtnihagkerfisins sem vex hvað hraðast.
Vöxtur hérlendis í sölu á notuðum fötum og húsgögnum er ekkert einsdæmi og sama þróun á sér stað í öðrum löndum. Í Bretlandi og Bandaríkjunum er álíka vöxtur. Í Bretlandi var ákveðið að breyta þeirri ímynd sem var á sölu notaðra hluta (used goods) og var þá tekið upp heitið „preloved goods“. Ekki er komið neitt gott íslenskt heiti á þetta en ein tillaga sem skotið hefur upp kollinum með notuð föt er „fráskilin föt“.
Samkvæmt upplýsingum sem starfshópur um flýtingu hringrásarhagkerfisins hefur aflað eru um 40 aðilar hérlendis sem sinna sölu á fráskildum nytjahlutum. Skipta má þessum aðilum í tvo meginflokka:
Í fyrsta lagi er um að ræða verslanir með fatnað og nytjavöru sem starfræktar eru af félagasamtökum eða hinu opinbera. Má þar nefna Góða hirðinn og Rauðakrossbúðirnar.
Í öðru lagi er um að ræða verslanir sem reknar eru af einkaaðilum og bjóða aðallega föt, húsgögn og nytjahluti sem gjarnan nýta vefinn sér til hags.
Allt bendir til þess að vöxtur sé í báðum þessum flokkum. Gera má ráð fyrir að velta stóru verslananna með fráskilda nytjahluti sé 8-900 milljónir á árinu 2022.
Mjög áhugavert er síðan að skoða einkafyrirtæki sem hafa skotið upp kollinum á þessu sviði undanfarin ár. Velta tíu stærstu fataverslananna á milli áranna 2020-2021 jókst um allt að 35% og nam röskum hálfum milljarði króna.
Við eigum mikið verk fyrir höndum þegar kemur að hringrásarhagkerfinu. Ný hringrásarlög um flokkun heimilissorps taka gildi um áramótin. Það verður áskorun en ábatinn verður mikill. Við eigum að leita að tækifærunum líkt og áðurnefndir aðilar gera. Það margborgar sig.
Höfundur er umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.