Framkvæmdastjóri Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál sakar fyrrverandi ríkisskattstjóra og undirritaðan um öfund og afbrýði í innsendri grein í Fréttablaðinu daginn fyrir þjóðhátíðardaginn 2022.

Eins og heimasíða Rannsóknarmiðstöðvarinnar ber með sér er aðstandendum hennar annt um hag útgerðar og útgerðarmanna. Ætla mætti að aðstandendur telji útgerðarmenn sérstaklega þurfa á umhyggju og náungakærleik að halda.

Tilefni tilskrifa framkvæmdastjórans til okkar Indriða er að 31. maí birtist frétt í Fréttablaðinu um að hagnaður nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja hafi aukist um 100 milljarða króna milli áranna 2020 og 2021. Árið 2020 nam veiðigjalda­reikningur útgerðarinnar tæpum 5 milljörðum króna. Veiðigjaldið er ekki skattur heldur afgjald sem útgerðinni er gert að greiða fyrir aðgang að auðlind sem er skilgreind sem eign íslensku þjóðarinnar. Ég benti blaðamanninum á að ef beitt væri svipuðum reglum við skattlagningu á náttúruauðlindum í almenningseigu á Íslandi (fiskistofnar) og í Noregi (olía) yrði greiðsla útgerðarinnar til ríkissjóðs 55-60 milljarðar króna vegna ársins 2021. Að sjálfsögðu að því gefnu að spár um afkomu ársins 2021 stæðust. Degi fyrr hafði Indriði nefnt 40-60 milljarða sem eðlilegt veiðigjald miðað við gefnar forsendur í viðtali við sama blaðamann. Ég bið lesanda að finna öfundina og afbrýðina í þessari frásögn!

Annars er röksemdafærsla framkvæmdastjórans full þversagnakennd fyrir aðila sem stjórnar stofnun sem kennir sig við rannsóknir á samfélags- og efnahagsmálum. Í upphafsorðum greinarinnar fullyrðir hann að sjávarútvegur sé eina atvinnugreinin íslensk sem skarar fram úr á alþjóðavísu! Undir lok greinarinnar fullyrðir framkvæmdastjórinn svo að afkoma í sjávarútvegi sé lakari en í öðrum íslenskum atvinnugreinum! Hvernig í ósköpunum getur sama atvinnugreinin borið af öðrum íslenskum atvinnugreinum og verið í andarslitrunum á sömu stundu? Rannsóknarstofnunarforstjórinn verður að endurskoða rannsóknaraðferðir sínar er ég hræddur um!

Rannsóknarstofnunarforstjórinn kvartar undan því að ISAT-flokkun Hagstofunnar sé illa fallin til að einangra sjávarútveg sem atvinnugrein. Það virðist hafa farið fram hjá forstjóranum að Hagstofan hefur um langt árabil unnið sérstaka vinnslu, byggða á rekstrar- og efnahagsreikningum sjávarútvegsfyrirtækja. Þessi vinnsla byggir á grunni sem varð til hjá Þjóðhagsstofnun, en sú stofnun gegndi mikilvægu hlutverki varðandi verðlagningu sjávarafla á árum áður. Í samantekt (á ensku) síðustu útgáfu þessarar úttektar Hagstofunnar segir m.a: Samanlagðar eignir veiða og vinnslu námu 830 milljörðum ISK, skuldir námu 496 milljörðum og eiginfé var 333 milljarðar króna. (Aggregated balance sheet of fishing and fish processing shows that the total worth of assets of the fisheries are 830 billion ISK, liabilities are worth of 496 billion ISK and equity 333 billion ISK.). Samkvæmt blaðafréttum munu bætast allt að 100 milljarðar við á árinu 2021. Þá er ótalið það sem kann að vera geymt í skattaskjólum á Kýpur og Maldíveyjum. Af þessu má draga þá ályktun að greinin geti vel greitt eðlilegt gjald fyrir aðgang að þjóðarauðlindinni. Kannski gæti aukin gjaldtaka forðað forsvarsmönnum greinarinnar frá axarsköftum sem kalla á rannsóknir erlendra saksóknara?