Þekkingarleysi er eitt af því sem viðheldur fordómum í samfélögum og er fræðsla besta lyfið við því. Geðsjúkdómar eru alvarlegir sjúkdómar sem fólk á öllum aldri á ekki að þurfa að fela eða skammast sín fyrir. Mikilvægt er að fræðsla um andlega líðan sé veitt snemma á lífsleiðinni svo börn og unglingar viti að geðsjúkdómar eru ekki tabú og það er í lagi að ræða þá.

Leggja þarf meiri áherslu á forvarnir, fræðslu, snemmtæka íhlutun og eftirfylgd á öllum stigum skólakerfisins. Með slíkri vinnu er hægt að grípa fyrr inn í aðstæður skólabarna sem þurfa á hjálp að halda vegna andlegrar vanlíðunar, krefjandi uppeldisaðstæðna, áfalla og fleira. Rannsóknir sýna fram á að börn og unglingar sem búa við erfiða andlega- eða félagslega stöðu er hættara við að leiðast inn í hinn stóra heim fíkniefna snemma á lífsleiðinni. Sá heimur nær allt frá áfengisneyslu til harðgerðra fíkniefna. 

Þessi börn og unglingar passa erfiðlega inn í kerfið vegna tvíþætts vanda sem hrjáir þau. Stjórnvöld þurfa því að beita sér fyrir fjölgun úrræða fyrir þessa einstaklinga. Það er einfaldlega ekki boðlegt að þau þurfi að gista fangageymslur vegna úrræðaleysis, meðan verið er að nota fjármuni borgarinnar og ríkisins í óþarfari hluti. Það er ekki nóg að tala og funda um hvernig skuli breyta þessu ef ekkert er framkvæmt. 

Sem dæmi má nefna hönnun nýja meðferðarkjarnans við Landspítalann á Hringbraut, þar er ekki gert ráð fyrir geðdeildum fyrir unga eða fullorðna í skipulaginu. Flokka mætti þetta hönnunarslys sem fordóma, því greinilega á það að vera nóg fyrir einstaklinga með geðsjúkdóma að hafa aðgang að hálf ónýtum mygluðum húsnæðum.

Við í Miðflokknum teljum þetta úrræða- og skipulagsleysi vera óásættanlegt. Við ætlum að beita okkur fyrir því að öflugt samstarf verði milli Reykjavíkurborgar og ríkisins í að veitta vandaða geðheilbrigðisþjónustu þar sem einstaklingurinn verði hafður í öndvegi, óháð kyni og aldri. Markmið okkar með samstarfinu við ríkið er jafnframt það að fjölga verði geðheilbrigðisstarfsfólki á heilsugæslustöðvum borgarinnar sem starfar líka að fræðslu, forvörnum og eineltismálum í grunn- og framhaldsskólunum. Markmiðið er jafnframt að þetta teymi veiti ókeypis viðtalsþjónustu fyrir þá einstaklinga sem það þurfa, að 18 ára aldri.

Höfundur er geðhjúkrunarfræðingur og frambjóðandi Miðflokksins í Reykjavík.