Heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft gríðarleg áhrif á áfangastaði og samfélög út um allan heim. Ferðaþjónusta hér á landi hefur staðið með vindinn í fangið frá því í mars. Það lægði um stund yfir hásumarið, en svo hvessti aftur allhressilega þegar tekin var upp tvöföld skimun á landamærunum þann 19. ágúst síðastliðinn. Afleiðingarnar þekkja flestir. Atvinnuleysi er í hæstu hæðum, þúsundir fyrirtækja í öndunarvél og skuldir hins opinbera hafa vaxið mikið.

Þetta á auðvitað ekki bara við um Ísland – en faraldurinn með tilheyrandi samdrætti í ferðalögum á milli landa, hefur bitnað illa á hagkerfi landsins ekki síst vegna mikils vægis erlendra ferðamanna í ferðaþjónustu hérlendis, lítils heimamarkaðar og stærðar greinarinnar í íslensku efnahagslífi almennt.

Sem betur fer, hyllir nú í straumhvörf í faraldrinum, þar sem nú hafa verið kynnt til leiks tvö bóluefni, sem þykja lofa góðu. Nú getum við vonandi farið að einbeita okkur í alvöru að „viðspyrnu“, eins og fólk er sammála um að kalla þá tíma sem fara í hönd í kjölfar faraldursins.


Breytt ferðahegðun?


Miklar hugleiðingar og umræður eru nú í gangi um lífið „eftir COVID“. Verður grundvallarbreyting á ferðahegðun fólks? Hvenær verður fólk tilbúið til að ferðast? Hvernig og hvenær ná fyrirtækin sér á strik á ný?

Það er ekkert sem bendir til þess að fólk muni hætta að ferðast – en mun það draga úr ferðalögum milli landa? Mun eftirspurnin taka breytingum? Hvaða áhrif mun það hafa á rekstur fyrirtækja í ferðaþjónustu? Verða þau rekin á allt annan hátt en áður? Með nýsköpun, kannski „grænni nýsköpun“?

Þegar öllu er á botninn hvolft snýst viðreisnin aðallega og fyrst og fremst um hvenær ferðalög verða aftur möguleg. Það er fátt sem kemur í staðinn fyrir ferðahug og gott ferðalag og sennilega munu mörg hagkerfi heimsins ekki taka við sér fyrr en ferðalög hefjast á ný. Það á einkum og sér í lagi við um íslenska hagkerfið.

Mikilvægi ferðaþjónustu í viðspyrnuáætlunum samfélagsins setur samkeppnishæfni atvinnugreinarinnar í nýtt samhengi. Um leið og aðstæður skapast munu áfangastaðir þjóta út á völlinn og berjast um ferðamanninn.


Frá samdrætti til viðreisnar


Nú er nokkuð góður einhugur um það á Íslandi að hraðari efnahagsbati byggi á því að erlendir ferðamenn fari aftur að streyma til landsins. Skapa verðmæti, nýta innviði og aðgerðalaust vinnuafl. Það er ekkert sem bendir til þess að miklar breytingar verði á ferðalögum jarðarbúa eftir COVID – allavega ekki hvað varðar tíðni ferða, þó áherslur varðandi áfangastaði gætu orðið aðrar til að byrja með. Litlar efasemdir eru um að opnun landamæra með þeim sóttvarna­ráðstöfunum sem ferðaþjónustan og ferðamenn geta unnið með, mun marka upphaf viðspyrnu í íslensku hagkerfi. Varla er mikill ágreiningur um að nýsköpun sé mikilvæg en hún er ekki töfralausn í snöggri viðspyrnu, ekki einu sinni, þó hún sé græn. Stjórnvöld og helstu greiningaraðilar eru réttilega búin að átta sig á þessu. Í sviðsmyndagreiningum er fjöldi erlendra ferðamanna til landsins, en ekki síður verðmætasköpun á hvern ferðamann, mikilvægasta breytan í skjótum efnahagsbata og helsta forsendan fyrir vexti á tekjuhlið hins opinbera.

Mikilvægi ferðaþjónustu í viðspyrnuáætlunum samfélagsins setur samkeppnishæfni atvinnugreinarinnar í nýtt samhengi. Um leið og aðstæður skapast munu áfangastaðir þjóta út á völlinn og berjast um ferðamanninn. Þar munu áfangastaðir um allan heim leggja kapp á að vera með stóra og úthugsaða markaðsherferð á erlendum mörkuðum. Þar verður Ísland líka að vera fullgildur þátttakandi. Þá er ekki síður mikilvægt að tryggja að til staðar verði öflug og traust fyrirtæki úr allri virðiskeðjunni og alls staðar á landinu til að sinna eftirspurninni, sem gæti orðið meiri en björtustu spár gera ráð fyrir.

Það er því grundvallaratriði að huga strax að samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu. Samkeppnishæfni greinarinnar mun gegna lykilhlutverki í afli og hraða viðspyrnunnar.

Gengi íslensku krónunnar spilar þar lykilhlutverk og hefur vissulega þróast í hagstæða átt fyrir útflutningsgreinar á þessum síðustu og verstu tímum. Hagstæð gengisþróun getur hins vegar verið fallvölt gæfa eins og Íslendingar þekkja vel.


Stjórnvöld þurfa að byggja undir viðspyrnuna


Nú er mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulíf standi saman. Nú ríður á að rekstrarumhverfi ferðaþjónustu verði greininni sem hagfelldast. Í þeirri stöðu sem nú er uppi væri eðlilegt að horfa til þess næstu misserin að lækka skatta og gjöld á ferðaþjónustu, á meðan fyrirtækin eru að ná fyrri styrk og afli til atvinnu- og verðmætasköpunar. Þar má líta til virðisaukaskatts, bílastæða- og þjónustugjalda bæði við Leifsstöð og í þjóðgörðum, gistináttaskatts (sem ætti að afnema varanlega), vörugjalds á bílaleigubíla og fleiri umdeildra skatta, sem hafa bein áhrif á samkeppnishæfni áfangastaðarins. Við hjá SAF munum áfram leggja mikla áherslu á að uppræta ólöglega atvinnustarfsemi, hvort sem er erlendra eða innlendra aðila, sem skekkja samkeppnisstöðu greinarinnar innan frá. Þar er liðsinnis stjórnvalda þörf.

Viðspyrnan er sem betur fer í sjónmáli. Mikilvægt er að vanda til hennar og taka afgerandi skref í átt að betri samkeppnishæfni, en varast að kæfa hana með vanhugsuðum aðgerðum eða aðgerðaleysi.

Höfundur er formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.