Mannslíkaminn er magnað fyrirbæri en þó ekki gallalaus. Ég hef áður undrað mig á þeim hönnunargalla okkar að taka tennur aðeins tvisvar á lífsleiðinni. Fyrst sem smábörn og síðar sem börn og unglingar á tímaskeiði þegar við höfum engan skilning á heilbrigðum tönnum og góðri umhirðu þeirra. Miðað við umfangsmiklar viðgerðir á kjafti mínum undanfarið hefði ég tekið nýjum skjannahvítum tönnum fagnandi á miðjum aldri.

En það eru aðrir gallar á mannslíkamanum. Af hverju getum við til dæmis ekki lokað eyrum okkar þegar við sofum? Ég skil það vel að hér áður þurftum við að vera á varðbergi, ef til dæmis ljón kæmi öskrandi inn í helli okkar um nótt. Í dag er engu slíku fyrir að fara. Áður gat ég sofið við hávaða og læti en í dag vakna ég við minnsta þrusk. Því sef ég með eyrnatappa sem eru fyrir vikið jafn órjúfanlegur hluti af svefni mínum og sængin.

Og meira af svefni. Af hverju tók líkami minn upp á því að þurfa að fara að pissa á nóttunni? Hér áður svaf maður þetta allt af sér, jafnvel eftir að hafa drukkið vökva eftir átta að kvöldi. Nú vakna ég undantekningarlaust eftir 5-6 tíma svefn til að fara að pissa. Oftast sofna ég aftur en stundum ekki og þá fer ég á fætur eftir of lítinn svefn.

Það er því gaman að láta sig dreyma um framtíð með lausar tennur og jafnvel stöku tannleysi um fertugt, bíðandi eftir nýjum miðaldratönnum. Eyru sem geta lokast rétt eins og augun og líkama sem kann að stjórna vatnsbúskap sínum en er ekki að losa sig við vatn um miðjar nætur.

En síðan er líka ágætt að muna að allt eru þetta dæmi um að maður er að eldast, sem er þegar allt er tekið saman kannski ekki svo slæmt.