Tuttugasta og fyrsta öldin er öld breytinga. Framtíð borga felst mikið í því að nýta nýja tækni og vera leiðandi í umbreytingum.

Á sama hátt og hrein hitaveitan tók við af mengandi kolakyndingu getur Reykjavík verið í fararbroddi við rafvæðingu bílaflotans. Þó eitthvað sé gert af hálfu borgarinnar er hægt að gera miklu betur í þeim efnum. Markaðurinn og almenningur eru á undan í þessari umbreytingu. Hér á borgin að stórbæta aðgengi almennings að rafhleðslu í fjölbýli. Þetta höfum við Sjálfstæðismenn lagt til í borgarstjórn. Loftgæðin eiga líka að vera betri. Talið er að um 80 ótímabær dauðsföll megi rekja til svifryksmengunar í Reykjavík. Hér þarf að snúa við blaðinu og bæta loftgæði með betra malbiki og hreinum orkugjöfum.

Íslensk fyrirtæki hafa verið framarlega í notkun Internetsins. Höfuðborgin er eftirbátur í þessum efnum en ekki leiðandi. Enn þarf að skila teikningum og skjölum á pappír inn í borgarkerfið sem svarar með bréfapósti. Nú eða alls ekki. Nýlega sendi borgin áskorun á borgarbúa um að afþakka pappír. Áskorunin var send inn um allar lúgur. Á pappír. Í stað þess að falla á eigin prófi ætti borgin að auðvelda samskiptin við íbúa með skilvirkum hætti. Svara fyrirspurnum hratt og vel og afgreiða mál. Kostnaður í borgarkerfinu er gríðarlegur eins og það er í dag og eru mun fleiri starfsmenn á íbúa í stærsta sveitarfélaginu en nágrannasveitarfélögum. Viðbrögð fyrirtækja og skóla í COVID-19-faraldrinum sýna vel hvernig hægt er að auka skilvirkni. Tæknin eykur sveigjanleika, framleiðni og bætir þjónustu. Þrjár flugur í einu höggi.

Bylting er að eiga sér stað í samgöngumálum. Fjórða iðnbyltingin er ekki síst í sjálfkeyrandi farartækjum sem munu spara fjármuni og bjarga mannslífum. Hér á borgin að vera leiðandi. Merkingar verða að vera í lagi. Og svo er stórt tækifæri í að nútímavæða almenningssamgöngur. Sjálfvirkir strætisvagnar geta bætt þjónustuna mikið, enda er kostnaður við slík kerfi mun lægri. Í stað þess að veðja á línulegar lausnir er framtíðin fólgin í snjöllum og persónumiðuðum lausnum. Þar á Reykjavík að vera í fararbroddi.