Nú í vor stóð til að hefja slit á Framtakssjóði Íslands. Hann hafði þá lokið hlutverkinu sem honum var ætlað við stofnun fyrir tíu árum. Á líftíma sínum hagnaðist Framtakssjóðurinn um 47,7 milljarða og skilaði 110% ávöxtun.

Við stofnun Framtakssjóðsins í miðju efnahagshruni hétu sextán lífeyrissjóðir allt að 60 milljörðum til uppbyggingar íslensks atvinnulífs. Sjóðurinn fjárfesti fyrir 43,3 milljarða í níu fyrirtækjum. Þau voru þá í miklum vandræðum en voru endurskipulögð og komið í hendur nýrra eigenda með jákvæðum áhrifum á íslenskan vinnumarkað og atvinnulíf.

Fyrsta fjárfesting Framtakssjóðsins var fyrir 3,6 milljarða í Icelandair vorið 2010. Félagið þurfti fjárhagslega endurskipulagningu, gengi hlutabréfa var sögulega lágt og skuldirnar miklar. Fyrir þá fjárhæð eignaðist Framtakssjóðurinn 29% hlutafjár.

Þegar Framtakssjóðurinn seldi hlut sinn í Icelandair í áföngum frá 2011-2014 varð 11,5 milljarða hagnaður af fjárfestingunni, eða rúm fjórföldun á því sem fjárfest var fyrir.

Reynslan af frumkvæði lífeyrissjóðanna með stofnun Framtakssjóðsins er rakin í riti eftir Ásgeir Jónsson og Alexander Frey Einarsson. Þeir fara þar yfir hvað gekk vel og hvað síður.

Niðurstaða þeirra er að framtaksfjárfestingasjóðsformið hafi hentað mjög vel sem er áhugaverður lærdómur fyrir stöðuna í dag. Það hafi verið heppilegt fyrir lífeyrissjóðina að leggja sitt fé í framtakssjóðinn frekar en að vinna hver fyrir sig á eigin bókum.

Framtaksfjárfestingar séu líka góð viðbót í eignasafn lífeyrissjóðanna. Armslengdarsjónarmið séu virt og eigendurnir sitji í ráðgjafarráði en komi ekki að einstökum fjárfestingum. Framtakssjóðnum sé treyst fyrir því. Þá sé framtakssjóður betri til að standa í endurskipulagningu á rekstri fyrirtækja heldur en bankar sem eiga í flóknari viðskiptasamskiptum við þau.

Icelandair og fleiri fyrirtæki eiga í miklum vanda vegna kórónuveirunnar, langtímahorfurnar góðar en lausafjárstaðan veik. Ferðaþjónustan öll er í uppnámi og íslenskt hagkerfi í miklum vanda en um leið eigum við ákaflega sterka lífeyrissjóði sem eiga mikið undir því að íslenskt efnahagslíf verði ekki fyrir of þungum skelli.

Lykillinn fyrir þá er að umgjörð verkefnisins sé skýr og markmiðin klár. Ekki er hægt að heimta að lífeyrissjóðirnir komi að málum á annan hátt en að viðskiptasjónarmið stýri ferðinni og björgunarverkefnin verður að velja mjög vel.

Tíminn er peningar og nú þarf að sækja verkfærin sem dugðu best í síðasta tjóni og skoða vandlega hvort ekki sé tilefni til að endurvekja framtakssjóðsmódelið fyrir Icelandair og einstaka önnur fyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu til að hún geti sótt fram og orðið sjálf bær og heilbrigð þegar veiran hefur verið lögð að velli.