Viðurkenning fyrir framtak ársins til að auka raunverulegt jafnrétti fer til stjórnenda Arion banka fyrir „að tryggja starfsfólki 80% launa í fæðingarorlofi“.

Fyrir mig og aðra þá sem vinna að auknu jafnrétti er framtak bankans mikil gleðitíðindi og við hljótum að ætla að enginn fagni þessu meira er jafnréttisráðherrann í forsætisráðuneytinu.

„Með því að tryggja starfsfólki 80% laun í fæðingarorlofi er foreldrum, óháð kyni eða annarri stöðu, auðveldað að nýta fæðingarorlofsrétt sinn. Þannig miðar aðgerðin m.a. að því að fjölga þeim feðrum sem nýta fæðingarorlofsrétt sinn og að styrkja konur í stjórnunarstöðum. Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir: „Við viljum auðvelda starfsfólki okkar að taka fæðingarorlof með því að tryggja öllum nýbökuðum foreldrum 80% af launum sínum á þessum dýrmæta og mikilvæga tíma í lífi þeirra og barna þeirra. Jafnframt viljum við með þessu gera Arion banka að enn eftirsóknarverðari vinnustað fyrir ungt og hæfileikaríkt fólk.“ Svo segir á vef Arion banka og láti guð gott á vita.

Og við baráttumennirnir hljótum enn fremur að ætla að Katrín Jakobsdóttir jafnréttisráðherra sé á sömu línu og leiti nú tækifæra, ásamt sínu starfsfólki, til að ríkið verði ekki eftirbátur bankans, heldur verði ríkisreknar stofnanir ekki síður eftirsóknarverðir vinnustaðir fyrir ungt og hæfileikaríkt fólk.

Hið gleðilega framtak bankans felur í sér jafna ábyrgð beggja foreldra á umönnun barna sinna og það er gríðarlega mikilvægt atriði. Nýir foreldrar í hópi starfsfólks munu hafa betri forsendur og tækifæri en aðrir til að sinna þroskaþörfum ungra barna sinna. Jafnari umönnunarábyrgð, óháð kyni foreldra, mun síðan hafa í för með sér þroskaeflandi styrk frá frumbernsku sem þegar fram líður skilar sér í minni byrði á starfsfólk í mennta- og velferðarstörfum, svo ekki sé talað um í heilbrigðisþjónustu.

Alvitað er að bæði foreldrar og starfsfólk í áður nefndum störfum þarfnast mun betri skilyrða. Útspil Arion er því svo sannarlega ekki aðeins fagnaðarefni heldur beinlínis til eftirbreytni. Nú bíðum við bara eftir því að jafnréttisráðherra og æðsti stjórnandi ríkisins, langstærsta vinnuveitanda landsins, sýni sín spil. Jákvæð skref jafnréttisráðherra verða fordæmi fyrir aðrar stofnanir og fyrirtæki í landinu. Vilji er allt sem þarf.