Sigurður Ingi og aðrir forystumenn Framsóknarflokksins reyna að ná stuðningi og fylgi með því að fullyrða að þeir séu frjálslyndur miðjuflokkur, hinn eini sanni miðjuflokkur á Íslandi.

Á þessum grundvelli þykist formaðurinn vera til þess kjörinn að stofna til og leiða nýja ríkisstjórn. Hann geti sameinað það, sem kallast hægri og vinstri, á frjálsræðislegum miðjugrundvelli. Hann geti haft allt og alla í huga, á báðum vængjum stjórnmálanna, séð um alla og sinnt öllum.

Hljómar vel, en, það sem gildir er auðvitað ekki hljómurinn og yfirborðið, heldur það sem rétt er. Það rétta er að Framsóknarflokkurinn er enginn frjálslyndur miðjuflokkur, sem gæti sameinað og samstillt stjórnmálaöfl landsins, heldur flokkur einangrunarstefnu og kyrrstöðu.

Í raun er munurinn á Framsókn og Miðflokki enginn, enda tvær greinar af sama meiði, nema þá það að Sigmundur Davíð étur hrátt nautahakk úti í móa og veltir sér um velli með hundum, sem Sigurður Ingi gerir ekki, svo vitað sé.

Munurinn á Framsókn og Miðflokki liggur helzt, eða eingöngu, í því að báðir þessir menn vildu vera formenn Framsóknar, sem auðvitað gekk ekki, þess vegna urðu flokkarnir tveir. Það var enginn málefnalegur ágreiningur!

Af hverju er Framsókn ekki miðjuflokkur?

Í Norður-Evrópu er 15 frjálslyndir miðjuflokkar, sem svo vilja vera, og flestir þeirra eru það líka. 13 þeirra, um öll Norðurlönd og norðaustur Evrópu skilja, að sameinuð Evrópa er lífsnauðsyn, ef álfan á að geta staðið af sér ógnir framtíðarinnar, varið menningu sína, velferð, lifnaðarhætti og sitt mannlíf, en árið 2100 verða jarðarbúar orðnir um 11.5 milljarðar, á sama tíma og Evrópubúar verða enn ekki nema 500 milljónir manna – fjöldi Evrópubúa stendur í stað – þannig að Evrópubúar verða rétt 4% mannkyns.

Sannir miðjuflokkar þessara 13 landa, sem flestir eru kenndir við „Center“, skilja þessa stöðu og styðja Evrópu og mesta mögulega sameiningu hennar, þó sem bandalag sjálfstæðra þjóðríkja, í formi Evrópubandalagsins, af öllu afli og heilshugar.

Þessir sömu 13 flokkar gera sér grein fyrir feikilegum efnahagslegum og þjóðfélagslegum kostum þess að taka upp evruna, beint eða óbeint, en uppbygging atvinnulífsins og hvatning til nýsköpunar og framtaks, sem aftur er grundvöllurinn fyrir blómlegu atvinnulífi, byggist einmitt á því að menn hafi traustan, stöðugan og fyrirsjáanlegan efnahagsgrundvöll ásamt með ríflegu ódýru fjármagni, sem kostar kannske 1-2% á ári, til að fara í sínar fjárfestingar og uppbyggingu.

Hvoruga þessa staðreynd skilur Framsókn. Forystumenn flokksins fullyrða, að þeir séu systurflokkur þessara 13 flokka, en það eru þeir ekki í reynd, því Framsókn er læst og kolföst í gömlum íhaldskreddum og -kenningum um það að víðtækt og náið samstarf við evrópskar vina- og frændþjóðir sé ekki aðeins varhugavert, heldur hættulegt, ásamt með Senterpartiet í Noregi, öðrum gömlum og steinrunnum bændaflokki.

Þessir tveir flokkar, sem þykjast vera í hópi 15 frjálslyndra miðjuflokka í Norður-Evrópu, standa einir og einangraðir, í sínu steinrunna íhaldsformi úti í horni, og eiga ekki heima meðal hinna.

Sjáið þið og heyrið þið nú í Sigurði Inga í umræðuþættinum Pólitík með Páli Magnússyni á Hringbraut 25. ágúst síðastliðinn. Þar kemur ekki aðeins fram að hann hatast við Evrópu, heldur fer hann þar með alrangar fullyrðingar, til að reyna að styðja mál sitt, þar sem hann staðhæfir að ESB hafi „stigið á fætur ríkisstjórnarinnar“ við útvegum Covid-bóluefnis, en það var einmitt fyrir velvild og jákvætt samstarf við ESB, sem Íslendingar fengu sín bóluefni fljótt og vel.

Ella hefðum við setið uppi eingöngu með aðgang að rússnesku eða kínversku bóluefni. Það hefði kannske glatt Sigurð Inga og hans fylgjendur, en ekki aðra landsmenn.

Ég vil benda kjósendum á þá staðreynd, að einu flokkarnir, sem berjast fyrir frjálsræði og miðjupólitík, eru Viðreisn, sem hneigist bæði til hægri og vinstri, út frá miðju, og svo Samfylkingin, sem hallast meira til vinstri. Píratar eru líka ágætur valkostur, ekki sízt, hvað varðar velferð dýra, villtra og haldinna.

Saman spanna þessir þrír flokkar þann kjarna stefnu- og stjórnmála, þeirra hagsmunamála, sem mestu máli skipta fyrir Íslendinga, þeirra öryggi, efnahagslega afkomu og velferð, einkum og sér í lagi fyrir góða og örugga framtíð barna okkar og barnabarna.

Einangrunarsinnum og íhaldsöflum, eins og mér finnst að skilgreina verði Framsóknarflokkinn, verður að forðast að veita völd, svo og öðrum öfgaflokkum, til hægri og vinstri.

Þessi greining, þetta mat og þessi ráðgjöf kemur frá manni sem hefur farið víða, upplifað margt, tekist á við margvísleg verkefni í mörgum löndum, í meira en hálfa öld, er frjáls og óháður flokkum, með sína skoðun og afstöðu, og á engra hagsmuna að gæta neins staðar.