Það er að mörgu leyti tákn­rænt að leið­sögu­maður skuli ævin­lega leiða hóp ferða­manna jafnt í þétt­býli sem á fjöllum, sitja fremst í rútum, undir stýri í öku­leið­sögn. Leið­sögu­maðurinn er á­byrgur fyrir fram­kvæmd ferðar eins og hún var seld far­þegum, vel­ferð þeirra og öryggi í sam­vinnu við bíl­stjóra ef svo ber undir. Í stuttu máli, þá heldur leið­sögu­maðurinn einatt um alla þræði ferðarinnar og sér um að allt gangi smurt og að far­þegar geti notið landsins okkar góða öruggir og á­hyggju­lausir.

Það ríkti mikil gleði og til­hlökkun meðal leið­sögu­manna þegar ferða­menn gátu aftur farið að streyma til landsins fyrr í sumar, en þá hafði ferða­þjónustan sem kunnugt er verið al­ger­lega lömuð í hálft annað ár vegna Covíð-19. Leið­sögu­menn voru svo­lítið eins og kálfar að vori, rétt eins og far­þegarnir, og fögnuðu því mjög að geta aftur farið að vinna og fræða er­lendu gestina um ís­lenska náttúru, sögu og menningu.

Þrátt fyrir frá­bæran árangur í sótt­vörnum og bólu­setningu hvíldi samt skuggi veirunnar yfir öllum sem um­gengust okkar er­lendu gesti og gerir það nú sem aldrei fyrr þegar hún virðist enn og aftur komin í veldis­vöxt. Ég leyfi mér að full­yrða að lang­flest ferða­þjónustu­fyrir­tæki gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir smit far­þega og starfs­manna, spritta, nota grímur, hólfa­skipta og upp­fræða ferða­fólkið. Það breytir því ekki að leið­sögu­menn eru eðli starfsins sam­kvæmt í lang­mestu og nánustu sam­skiptunum við okkar er­lendu gesti og eiga þar af leiðandi stöðugt á hættu að smitast. Við það bætist að ráðningar­sam­band leið­sögu­manna og ferða­þjónustu­fyrir­tækja er stundum ekki nógu skýrt og veikinda­réttur ó­ljós og ég veit dæmi þess að þaul­vanir leið­sögu­menn hafi af­þakkað verk­efni af þessum á­stæðum. Kæru­leysi eða reddingar við nú­verandi að­stæður er ekki boð­legt.

Endur­reisn ferða­þjónustunnar er lykillinn að upp­byggingu efna­hags­lífsins úti um allt land. Við þurfum að gera það fag­lega en var­lega, annars slær í bak­seglin. Við höfum mörg tromp á hendi, öryggi, náttúru­fegurð, sí­fellt betri inn­viði og vel menntað fag­fólk. Takist öllum sem í ferða­þjónustunni starfa að spila vel og skyn­sam­lega úr þessari við­kvæmu stöðu verður fram­tíð ferða­þjónustunnar björt og góð. Ég leyfi mér fyrir hönd ís­lenskra leið­sögu­manna að lofa því að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að svo megi verða.

Höfundur er formaður Leiðsagnar – stéttarfélags leiðsögumanna.