Umhverfisváin sem vofir yfir okkur er mikil og margþætt. Vistkerfi hrörna á miklum hraða, höfin eru mettuð af plastögnum, og ofsaveður færist í vöxt samhliða hlýnun jarðar. Taka þarf á hverju einasta vandamáli ef framtíðina skal tryggja. Miklar breytingar fylgdu heimsfaraldinum, en þar á meðal er mikil aukning í verslun fatnaðar á netinu. Samkvæmt skýrslu frá PwC eru um 30-40% af fatnaði sem keyptur er í gegnum netið, skilað. Að auki er talið að smásalar hendi yfir 25% af skiluðum fatnaði, og samkvæmt rannsókn McKinsey eru 70% skila vegna þess að flíkin hentar ekki líkamsbyggingu neytandans.

Tilkoma háhraðatísku (e. „ultra fast fashion“) hefur einnig gert það að verkum að líftími fatnaðar hefur styst, og hver flík er að meðaltali notuð 7-10 sinnum áður en hún endar annaðhvort á sorphaug eða í hafinu. Í Vestur-Afríkuríkinu Gana eru heilu strendurnar þaktar af fatahrúgum sem hefur skolað á land, en það er talið vera einungis brot af þeim fatnaði sem liggur á sjávarbotni rétt við strendur landsins með tilheyrandi áhrifum á vistkerfi. Það kemur því ekki á óvart að í skýrslu UNECE eru 85% af allri vefnaðarvöru sögð enda á haugunum ár hvert. Tískuiðnaðurinn ber ábyrgð á 10% allrar kolefnislosunar í heiminum, og samkvæmt World Economic Forum hefur hann að minnsta kosti tvöfaldast að stærð frá árinu 2000.

En hvar standa Íslendingar þá þegar kemur að kaupum, endurnýtingu, og urðun fatnaðar? 76,8% Íslendinga versluðu á netinu síðastliðið ár, samkvæmt könnun Gallup. Meðal Íslendingurinn kaupir 17kg af vefnaðarvöru ár hvert, þrefalt á við meðaltal á heimsvísu. Árið 2021 henti hann svo 11,5 kg af textíl og skófatnaði, en samkvæmt stefnu Umhverfisráðuneytisins í úrgangsforvörnum er miðað við að talan fari ekki yfir 10 kg á ári. Um 60% þess sem er hent, endar svo í annaðhvort urðun eða brennslu. Að lengja líftíma fatnaðar skiptir því sköpum til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Rebutia (CateCut) var stofnað með þennan vanda í huga. Rebutia er að þróa framúrskarandi hugbúnað sem greinir bæði föt og notendur ítarlega út frá líkamsbyggingu, litgreiningu, og stíl. Með því getur notandinn auðveldlega fundið fatnað sem hentar eigin líkama og passar við fatnað sem hann á fyrir. Nálgun verkefnisins er nýmæli á heimsvísu og er það bæði mun ítarlegra og nákvæmara en núverandi lausnir á markaði. Sýnt hefur verið fram á virkni hugbúnaðarins í notendaprófunum og mikil vinna verið lögð í að finna bestu nálgunina til að þróa sjálfvirka fatasamsetningu. Sérstaða Rebutia felst í að hjálpa viðskiptavinum að auka nýtni núverandi fatnaðar, kaupa föt á netinu sem passa, draga úr skilum, og minnka magn fatnaðar sem endar í urðun.

Rebutia hlaut Sprotastyrk Rannís 2020, og hlaut aðalverðlaun Å Pitch keppninnar sem haldin var í Finnlandi fyrir nýsköpunarfyrirtæki sem auka sjálfbærni. Fyrsta útgáfa snallsímaforrits sem notast við þessa tækni mun fara í loftið á fyrstu mánuðum 2023 og er afrakstur 3 ára rannsóknar- og þróunarvinnu. Fullgert mun forritið geta valið fatasamsetningar og fylgihluti sem henta hverjum notanda fyrir sig, og eftir því sem viðkomandi notar kerfið og þróar eigin stíl, mun forritið læra inn á breytta hegðun og laga sig að þörfum notandans.

Ljóst er að þörf er á miklum breytingum til að snúa við neikvæðri þróun undanfarinna ára í tískuiðnaðinum og stefnir Rebutia á að draga úr urðun fatnaðar á Íslandi um allt að 5 milljón kg yfir tíu ára tímabil með beitingu gervigreindar. Metnaðurinn er vissulega mikill, en vandinn er mun stærri, og verðum við því öll að leggja hönd á plóg.

Höfundar eru stofnendur Rebutia.