Marie Curie fæddist í Póllandi 7. nóvember 1867. Hún, ásamt eiginmanni sínum og Henri Bequerel, hlaut Nóbelsverðlaun í eðlisfræði árið 1903 fyrir brautryðjendastarf í rannsóknum á geislavirkni. Árið 1911 fékk Marie Curie Nóbelsverðlaun í efnafræði fyrir að finna frumefnin radín og pólon. Fyrstu Nóbelsverðlaun í eðlisfræði hlaut þýski eðlisfræðiprófessorinn Wilhelm Conrad Röntgen árið 1901 sem uppgötvaði röntgengeislun 8. nóvember 1895. Brautryðjendavinna í raunvísindum um aldamótin 1900 hefur því haft mikil áhrif á læknisfræði og þróun og beitingu heilbrigðisvísinda.

Til heiðurs hinni merku vísindakonu Marie Curie hefur 7. nóvember verið nefndur alþjóðlegur dagur læknisfræðilegrar eðlisfræði (Medical Physics). Læknisfræðilegir eðlisfræðingar hafa hlotið menntun og sérhæfða þjálfun í að beita eðlisfræði og tækni við greiningu og meðferð. Á spítölum eru skilgreind svið sem aðilar eins og Alþjóða geislavarnarráðið (ICRP) og Alþjóða kjarnorkumálastofnunin (IAEA) gera ráð fyrir í reglum sínum og ráðgjöf að heilbrigðisyfirvöld tryggi að til staðar sé sérhæfð þekking í læknisfræðilegri eðlisfræði. Þetta gildir á sviðum eins og geislameðferð (Radiation Therapy) og kjarnlækningum (Nuclear Medicine). Til að mega sinna fjölbreytilegum verkefnum í tengslum við heilbrigðiskerfi og geislavarnir krefjast lög, reglugerðir og tilskipanir flestra þjóða löggildrar háskólagráðu í læknisfræðilegri eðlisfræði. Fagstétt þeirra læknisfræðilegu eðlisfræðinga sem sinna klínískum verkefnum er hjá flestum þjóðum skilgreind sem heilbrigðisstétt, þó ekki enn á Íslandi.

Mikil þróun á sér stað í heilbrigðistækni og þeirri faglegu heilbrigðisþjónustu sem nýtt hefur verið við sjúkdómsgreiningar og meðferðir. Á Landspítala hafa orðið stórstígar framfarir á þessum sviðum undanfarin ár. Á nýliðnum árum hafa orðið þýðingarmiklar framfarir í læknisfræðilegri myndgreiningu og ber þar hæst tilkomu jáeindaskanna (PET) og nýs 3T segulómtækis (MRI) sem komið hefur á Landspítalann með stuðningi fyrirtækisins Íslenskrar erfðagreiningar. Tveir nýir línuhraðlar tóku við af eldri hröðlum og voru settir upp í húsnæði geislameðferðar í K-byggingu Landspítala, annar árið 2013 og hinn árið 2017. Þeir gefa kost á mun nákvæmari geislameðferð en eldri meðferðartækin. Í desember 2018 var tekið í notkun sneiðmyndatæki (CT) sérstaklega ætlað til undirbúnings geislameðferðar.

Þessar bættu aðstæður í tækjabúnaði Landspítalans hafa þegar leitt til mikilvægra framfara og aukinnar nákvæmni í sjúkdómsgreiningu og á sviði geislameðferða krabbameinssjúkra. Endurnýjun búnaðar í geislameðferðinni hefur leitt til þess að nú er unnt að bjóða upp á snúningsgeislameðferð (Rapid Arc), myndstýrða geislameðferð (Image Guided Radiotherapy) og öndunarstýrða geislameðferð (Respiratory Gating). Snúningsgeislameðferð gefur kost á að aðlaga jafngeislaferla í líkama sjúklings að þeirri meinsemd sem meðhöndla á og um leið hlífa betur en áður var unnt líffærum sem mikilvægt er að fái ekki háa geislaskammta. Myndstýrð geislameðferð tryggir nákvæmni í legu sjúklingsins og öndunarstýring gefur kost á að stilla geislameðferðina af með tilliti til öndunarhreyfinga sjúklinga.

Á þessum sviðum höfum við á Landspítala verið að elta uppi eftir því sem aðstæður leyfa framfarir sem hafa orðið hjá öðrum þjóðum sem við viljum bera okkur saman við í heilbrigðisþjónustu. Undirbúningur er þegar hafinn að næsta framfaraskrefi í geislameðferð á Landspítala. Hnitmiðaðri geislameðferð (Stereotactic Radiation Therapy) er víða beitt gegn staðbundnum illkynja meinsemdum. Þessi tækni er framkvæmanleg með þeim línuhröðlum sem við nú þegar höfum á Landspítala. Til að taka þessa tækni upp hér þyrfti að fjárfesta í festibúnaði ætluðum slíkri meðferð. Svo vel sé þyrfti einnig að efla hugbúnað geislameðferðarkerfa. Íslenskir sjúklingar eru í einhverjum mæli sendir í hnitmiðaða geislameðferð erlendis, en fyrir flesta þeirra ætti að vera unnt bjóða upp á slíka meðferð hér á landi. Einnig væri innleiðing á þessari tækni framför fyrir þau sem ekki geta með auðveldum hætti ferðast milli landa.

100 ár eru nú liðin síðan geislameðferð krabbameinssjúklinga hófst á Íslandi. Fyrir tilstuðlan frumkvöðlastarfs Gunnlaugs Claessen og fleiri manna var keypt til landsins radín og hófst geislameðferð með því árið 1919. Fjársöfnun fyrir forgöngu Oddfellowreglunnar á Íslandi réð úrslitum í því. Radín-geislahleðslurnar gáfu kost á meðferð sem oft er kölluð innri geislameðferð eða nándarmeðferð (Brachytherapy). Miklar breytingar hafa orðið á þessari öld sem liðin er. Enn beitum við á Landspítala innri geislameðferð, með iridíum-geislahleðslum einkum gegn leghálskrabbameinum og með joð-geislahleðslum gegn krabbameinum í blöðruhálskirtli. Nútíma tækni er beitt við undirbúning og framkvæmd slíkra meðferða.

Í ár er haldið er upp á það að 100 ár eru liðin síðan geislameðferð hófst á Íslandi og er af því tilefni málþing í Hringsal Landspítala við Hringbraut, 7. nóvember 2019 kl. 13-16.