Lögmál hins frjálsa markaðar um framboð og eftirspurn er meðal þess sem mótar líf okkar sem lifum í frjálsum vestrænum markaðssamfélögum. Sú skipan hefur reynst vel og tryggt framþróun og aukin lífsgæði, en best hefur hún nýst til að stjórna verðmyndun á frjálsum og opnum markaði. Lögmálið á ekki bara við um vörur heldur á það líka við um fólk og þannig upplifum við það strax í leik- og barnaskóla hvernig sum börn eru vinsælli en önnur. Af þessu leiðir að af sumu fólki er meira framboð en eftirspurn og af öðrum er meiri eftirspurn en framboð. Við fáum skýr skilaboð allt lífið um hvernig við stöndum í verðmyndun samfélagsins og flest högum við okkur í samræmi við þessi skilaboð.

Hvergi er þetta lögmál þó skýrara og miskunnarlausara en þegar fólk býður sig fram í kosningum, enda er slík hegðun kölluð framboð og kosningarnar notaðar til að mæla eftirspurnina. Þar kemur hún líka fram á eins skýran hátt og mögulegt er, því annaðhvort er eftirspurn eftir framboði eða ekki. Því er mér óskiljanlegt af hverju sumir fara í framboð þrátt fyrir að þeir hafi reglulega fengið skilaboð um að eftirspurn eftir þeim sé sama og engin. Er þetta þrjóska eða óbilandi bjartsýni?

Það er jafnvel til fólk sem leggur slíkt endurtekið á sig, þrátt fyrir skýr skilaboð kjósenda um að engin eftirspurn sé eftir kröftum þess. Frambjóðendum sem hefur verið hafnað í kosningum til Alþingis, í prófkjörum og víðar finnst samt eðlilegt að bjóða sig fram til æðstu embætta þjóðarinnar. Lýðræðið er grundvöllur frjálsra samfélaga en það má hins vegar ekki gengisfella það með offramboði án eftirspurnar.